133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[18:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. ráðherra um ILO-samþykktina. Í máli hans kom fram að um samþykktina væri ekki samstaða, þá væntanlega aðila vinnumarkaðarins, og að málið væri í einhverju ferli. En mig langar að vita: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til málsins? Það hlýtur að skipta einhverju máli. Hann er ekki einhver leiksoppur aðila vinnumarkaðarins. Hann hlýtur að hafa einhverja hreina og klára afstöðu og mér finnst að hún þurfi að koma fram, þ.e. hver sé pólitískur vilji hæstv. ráðherra hvað þetta varðar. Þetta skiptir verulega miklu máli. Ég fór á fund starfsmanna í álverinu í Straumsvík þar sem menn voru að ræða þessar uppsagnir sem komu án nokkurra skýringa og ég verð að segja að eftir að hafa setið þann fund þá finnst mér í rauninni atvinnurekendum vera miklu betur borgið með svona samþykkt og ég tala nú ekki um starfsmönnum fyrirtækjanna. Mér finnst í rauninni furðulegt að vilja ekki gefa upp ástæður til uppsagna og að þeim sé haldið leyndum. Mér finnst þetta vera furðulegt en ég ítreka enn og aftur: Hver er afstaða hæstv. ráðherra í þessu máli? Það hlýtur að skipta einhverju máli. Hann er ekki bara hér sem einhver leiksoppur aðila vinnumarkaðarins. Hann hlýtur að hafa einhverja skoðun á málinu.