133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:02]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram hjá formanni fjárlaganefndar að á fjáraukalögum séu núna ætlaðar 500 millj. til stofnana aldraðra og í ljósi þess að nú er verið að stíga mjög stórt spor í átt til þess að mæta biðlistum aldraðra, þar sem ríkisstjórnin hefur áform um að á næstu tveimur árum verði reist 370 ný hjúkrunarrými fyrir aldraða, tel ég að það sé mjög nauðsynlegt að fjárlaganefndin fari vel yfir daggjaldagrunn þessara heimila sem fyrir eru. Það er alveg ljóst, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að öldrunarstofnanir og hagræðing þess rekstrar er með þeim hætti að 60 rýma hjúkrunarheimili eru þau heimili sem geta staðið undir rekstri. Það er alveg ljóst eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan um hin minni hjúkrunarheimili úti á landi að þau geta aldrei staðið undir þeim rekstrarkostnaði sem hlýst af (Forseti hringir.) hinum smærri heimilum.

Þess vegna spyr ég: Ætlar fjárlaganefndin að fara grannt (Forseti hringir.) ofan í daggjaldastofn hjúkrunarheimila?