133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, formanni fjárlaganefndar, að stjórnarandstaðan hafi ekki lagst gegn tillögum ríkisstjórnarinnar ef þær horfðu til bóta og talið nauðsyn á að taka þær inn í fjárlögin.

Ég fór yfir það, hæstv. forseti, í ræðu minni að þær tillögur sem við hefðum flutt við fjárlögin á síðasta hausti væru núna komnar í fjáraukalagafrumvarpið. Hafi hv. þingmanni fundist tillögur okkar ábyrgðarlausar og furðulegar þá verð ég að benda honum á að hann er sjálfur búinn að taka þær upp. (BJJ: Nei, nei.) Ég held að hv. þingmaður ætti að líta í spegil og gera grín að sjálfum sér.