133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:27]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson gerði að umræðuefni þann vanda sem við er að stríða gagnvart ríkisfjármálunum, þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, hversu erfitt það er fyrir hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir ríkisins að standast fjárlögin. Það er nauðsynlegt og gott að gera þetta að umræðuefni. En hvað er það á undanförnum árum, virðulegi forseti, sem hefur verið svona erfitt hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum?

Það liggur alveg fyrir að 70–90% af útgjöldum hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja sem við rekum á vegum ríkisins eru laun. Það er launaþróunin í landinu sem hefur verið forstjórum og forustumönnum þessara fyrirtækja ákaflega erfiður ljár í þúfu og þeir eiga mjög erfitt með að fylgja þessu eftir. Og nú spyr ég, af því að ég man ekki: Getur það verið einhvern tíma, virðulegi forseti, að hv. þm. Einar Már Sigurðarson hafi tekið þátt í því að vara við þessari launaþróun? Ég hef oft gert það sjálfur, varað Íslendinga við að fara of geyst í launamálunum vegna þess að ef við færum með launin hraðar en hagvöxtinn, þ.e. verðmætasköpunina í þjóðfélaginu, fengjum við það allt í bakið í formi verðbólgu. Það hefur stundum gerst.

Ég minnist þess aldrei að nafni minn, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, hafi nokkurn tíma staðið við hliðina á mér þegar ég hef varað við þessu, beðið menn að gæta sín, fara varlega í launaþróunina vegna þess að þetta væri það sem sagan hefði kennt okkur að kæmi sér verst, einmitt fyrir launafólkið, þ.e. ef launaþróunin er of hröð og þá kemur verðbólgan og tekur þetta af þeim aftur, ekki einu sinni heldur jafnvel tvisvar vegna þess að verðtrygging skuldanna kemur og klípur líka af þeim eignirnar. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvar var hann þegar ég stóð og varaði við þessu?