133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Frumvarp til fjáraukalaga er að koma til atkvæðagreiðslu við 2. umr. Í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árið 2006 eru lögð til viðbótarútgjöld til hinna ýmsu málaflokka. Eins og fram hefur komið voru mörg af þeim útgjöldum fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga á síðasta hausti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og reyndar stjórnarandstöðunnar allrar, fluttu tillögur um að bæta þyrfti í við rekstur margra stofnana við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári. Meiri hlutinn sá ekki ástæðu til að verða við því þá en síðan er komið með það núna í fjáraukalög. Margar leiðréttingar sem eru gerðar við 2. umr. fjáraukalaga voru því nauðsynlegar og brýnar en voru fyrirsjáanlegar og hefðu átt að koma inn við fjárlagagerðina sjálfa. Þetta undirstrikar mjög óvönduð vinnubrögð af hálfu fjárlaganefndar við fjárlagagerðina sem slíka.

Aðrar greiðslur sem hér eru lagðar til eru einstök gæluverkefni einstakra ráðherra og koma í sjálfu sér fjáraukalögum ekki beint við. Mér finnst að stjórn landsins líkist æ meir ráðherraræði en þingræði því ákvarðanir um margt af því sem hér er verið að veita heimildir fyrir hafa verið teknar af framkvæmdarvaldinu og síðan nánast formsatriði að afgreiða. Grófasta dæmið er þegar ríkisstjórnin henti inn í fjárlaganefnd með stuttu bréfi núna fyrir helgina beiðni um 120 milljarða kr. hækkun á fjárskuldbindingum ríkisins án þess að fullnægjandi gögn lægju fyrir um forsendur þeirra beiðna. Þetta afgreiddi meiri hluti fjárlaganefndar frá sér á nokkrum mínútum án þess að verða við kröfu minni um að gögn lægju fyrir og afgreiðslu þess væri frestað. Þarna var m.a. verið að leggja til fjármögnunarákvæði á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun, sem engin gögn liggja fyrir um á Alþingi, og auk þess 5 milljarða greiðslu vegna aukins kostnaðar við Kárahnjúkavirkjun. Engin gögn liggja að baki þessu á Alþingi til að hægt sé að taka efnislega afstöðu til málsins. Svona vinnubrögð ganga ekki, frú forseti.

Varðandi tillögur almennt munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá og lýsa ábyrgð á afgreiðslu þeirra á ríkisstjórnina sjálfa og meiri hluta hennar á Alþingi en einstök atriði sem lúta beint að pólitískum röngum ákvörðunum sem verið er að veita heimildir fyrir munum við greiða atkvæði sérstaklega um þegar út í atkvæðagreiðsluna kemur, frú forseti.