133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

stjórnsýsla í tengslum við stækkandi þjóðlendur.

224. mál
[13:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur spunnist athyglisverð umræða um þessi mál. Það er vissulega rétt að menn þurfa að vanda sig í allri málsmeðferð og stjórnsýslu varðandi hinar nýju þjóðlendur sem eru ekki gamalt fyrirbæri í íslenskri löggjöf. Forsætisráðuneytinu er trúað fyrir þessum málaflokki og ég get fullvissað hv. fyrirpsyrjanda og aðra þingmenn um að reynt verður að standa að því þannig að fullur sómi sé að.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson benti hér á að ekki hefðu enn verið settar reglur um gjaldtöku í þjóðlendum. Það er rétt. Lagaheimild um það efni er fyrir hendi en það hefur ekki þótt tímabært að setja slíkar reglur meðan málið væri raunverulega ekki lengra komið og meðan ekki lægi alveg fyrir hvaða landsvæði yrðu endanlega þjóðlendur. En það styttist í að setja þurfi slíkar reglur vegna þess að nú er ásókn í nýtingu að aukast og fleiri dæmi um að aðilar, sveitarfélög og fleiri, óski þess að fá að nýta auðlindir innan þjóðlendna. Það er eðlilegt, eins og gert er ráð fyrir í lögunum, að fyrir slíkt komi gjaldtaka og síðan ákveðnar reglur um það hvernig ráðstafa eigi slíkum tekjum í þágu almennings.