133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

veiðiheimildir úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.

288. mál
[13:13]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi vísar með fyrirspurn sinni til ræðu minnar á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna föstudaginn 20. október sl. og vísar hann með óbeinum hætti til ummæla sem þar er að finna.

Í ræðu minni á þessum vettvangi rakti ég m.a. almennt þá þróun sem verið hefði í sjávarútvegi hér á landi með stækkun landhelginnar og þýðingu sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúskapinn og nefndi þá skoðun mína að meiri friður ríkti nú um fiskveiðistjórnarmálin en oft áður.

Með leyfi forseta, segir síðan í ræðunni sem fyrirspyrjandi og aðrir geta kynnt sér í heild sinni á heimasíðu forsætisráðuneytisins:

„Núverandi kvótakerfi hefur sannað gildi sitt. Það hefur leitt til bæði ábyrgrar og hagkvæmrar nýtingar auðlindarinnar. Með upptöku auðlindagjaldsins á sínum tíma var einnig séð til þess að útgerðarmenn greiddu rentu til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlindinni. Brýnasta verkefnið er að treysta þá sátt sem er um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Eyða þarf enn frekar óvissu um réttarstöðu útgerðarmanna, þannig að ljóst liggi fyrir að réttindi þau sem þeir nú kaupa á markaði muni ekki á einni nóttu verða af þeim tekin. Með þeim hætti skapast traustari rekstrarforsendur, útgerðirnar geta skipulagt rekstur sinn til lengri tíma. Jafnframt stuðlar slíkt að enn ábyrgari umgengni um auðlindina. Þótt stjórnvöld hafi hlutverki að gegna við stýringu þá er ábyrgð þeirra sem í greininni starfa ekki síður ljós. Nú þegar fiskveiðistjórnarkerfið er komið í fastar skorður og stjórnvöld stýra veiðunum ekki lengur með handafli vex ábyrgð útgerðarmanna að hugsa til langs tíma þeim sjálfum og öllum landsmönnum til hagsbóta.“

Til að svara þessari fyrirspurn að öðru leyti vil ég taka fram að við höfum, eins og áður er rakið og nefnt er í ræðunni, búið við ákveðið fiskveiðistjórnarkerfi sem er grundvallað á lögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi. Með úrlausnum dómstóla og skrifum fræðimanna hefur réttarsviðið skýrst enn frekar sem óþarfi er að rekja hér sérstaklega. Er óhjákvæmilegt að taka mið af slíkum breytingum eftir atvikum hér í þinginu með lagabreytingum. Það er í þessu ljósi sem hv. þingmaður verður að skoða framangreind ummæli mín.