133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa.

248. mál
[13:35]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér heyrist mikill samhljómur í málflutningi hv. þingmanna á Alþingi í þessu alvarlega máli. Ég vil hins vegar segja að það er ekki um það að ræða að ég þurfi að snúa við blaðinu hvað varðar afstöðu íslenskra stjórnvalda til þessa máls. Forverar mínir hafa komið á framfæri alvarlegum athugasemdum við Bandaríkjastjórn sem lúta að þessu máli og Guantanamo-fangelsinu.

Ég vil bæta við það sem ég sagði áðan að síðastliðið sumar úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna að herdómstóllinn í Guantanamo væri ólöglegur og meðferð fanga þar væri ekki í samræmi við ákvæði Genfarsáttmála. Í kjölfarið voru sett ný lög í Bandaríkjunum um meðferð grunaðra hryðjuverkamanna. Með lögunum komu bandarísk stjórnvöld m.a. til móts við gagnrýni ýmissa vestrænna ríkja um rekstur fangabúðanna í Guantanamo. Því er þó ekki að neita að hin nýju lög í Bandaríkjunum um meðferð grunaðra hryðjuverkamanna vekja ýmsar áleitnar spurningar.

Ég útiloka ekki að þetta mál verði tekið upp við bandarísk stjórnvöld. En ég ítreka að forverar mínir hafa gert það. Það hefur komið fram í opinberri umræðu á hv. Alþingi, m.a. af hálfu fyrrverandi utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar.