133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fjarskiptasjóður.

122. mál
[13:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. samgönguráðherra og snýr að Fjarskiptasjóði sem myndaður var eftir sölu ríkisins á Símanum. Í hann voru settir töluverðir peningar. Við vitum að fyrsta útboð er í gangi, sem betur fer, á ýmsum málum sem Fjarskiptasjóður á að koma að, hvort sem það er GSM-samband á þjóðveginum eða annað.

Við vitum líka, virðulegi forseti, að Fjarskiptasjóði er ætlað að koma betri háhraðatengingum til smærri byggðalaga og sveita landsins, þ.e. að menn fái að njóta þess að hafa háhraðatengingar í dreifbýli eins og aðrir, hvort sem það eru ADSL-tengingar eða eitthvað meira.

Ég hef áður sagt það, virðulegi forseti, að mér þótti slæmt að það þyrfti endilega að gera þetta eftir að búið væri að selja Símann. Ég hef áður gagnrýnt hve langan tíma þetta hefur tekið. Ég var þeirrar skoðunar að ríkissjóður hefði átt að leggja pening í þetta fyrir lifandis löngu. Það er óþolandi misrétti sem fjöldi fólks á landsbyggðinni hefur mátt búa við og býr við enn þá, að hafa ekki aðgang að háhraðatengingum. Við getum tekið dæmi af börnum í skóla á þeim stöðum þar sem háhraðatengingar eru ekki eða ferðaþjónustu, t.d. hjá bændum. Það er hluti af því sem ferðamenn krefjast þess að hafa, hvort heldur er GSM-samband eða háhraðatenging og almennileg tölvusamskipti.

Fjarskiptasjóður er með fyrsta útboð í gangi. Spurning mín er hins vegar til hæstv. samgönguráðherra, eins og hér segir með leyfi forseta:

Verður Fjarskiptasjóði heimilt að endurgreiða sveitarfélögum útlagðan kostnað við að koma upp háhraðatengingum ef þau kjósa að gera það fyrir eigin reikning?

Tilefni þessara fyrirspurnar er umræða á aðalfundi Eyþings þar sem bæjarstjórinn í Dalvíkurbyggð, Svanfríður Jónasdóttir, spurði fulltrúa frá samgönguráðuneytinu út í þetta. En þeir gátu sem embættismenn ekki svarað þessu.

Virðulegi forseti. Það er vitað, þekkt dæmi t.d. úr Hrísey frá því fyrir mörgum árum, að þar komu framtakssamir menn sér upp háhraðatengingu nánast fyrir eigin reikning. Spurning mín til ráðherrans er sem sagt þessi: Ef sveitarfélög kjósa að ganga hraðar í þetta, og telja sig ekki geta beðið eftir Fjarskiptasjóði, mun þá ráðherra beita sér fyrir því að þau geti fengið það endurgreitt úr Fjarskiptasjóði einhverjum missirum síðar?