133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

háhraðanettengingar.

147. mál
[14:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort áætlað sé að tryggja þeim íbúum landsbyggðarinnar sem voru 20 þús. samkvæmt skriflegu svari hæstv. ráðherra til mín fyrir tveimur árum og eru án háhraðanettengingar aðgengi að slíkri tengingu á næsta fjárlagaári. Ef svo er, hver er sú áætlun, skipt eftir svæðum?

Fyrirspurn þessi er tilkomin vegna þessa skriflega svars. Stór hluti hinna dreifðu byggða hefur ekki aðgengi að þessu og er, má segja, utan við upplýsingabrautina. Það er algjörlega óásættanlegt núna að svo margir, eða yfirleitt nokkur hluti landsmanna, séu utan við þessi grunngæði sem aðgengi að háhraðanettengingu hlýtur að flokkast, rétt eins og sími og rafmagn ef grípa má til einhvers samanburðar þó að hann sé alltaf erfiður. Þetta telst til grundvallargæða og það ræður vali fólks á búsetu hvort slíkar tengingar eru til staðar eða ekki. Þau svæði landsins sem bjóða ekki upp á aðgengi í háhraðanettengingum eru einfaldlega sett hjá og eru ekki raunhæfur búsetukostur fyrir ungt fólk í dag. Það blasir við. Það ætlast enginn til þess að fólk setji sig niður þar sem ekki er aðgengi að háhraðanettengingum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk ali upp börn þar sem ekki er aðgengi að netinu o.s.frv.

Upplýsingaveitan í dag er undirstaða búsetu rétt eins og sími og rafmagn og því er nokkuð kostulegt að ekki hafi verið ráðin bót á þessu fyrr.

Við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, höfum lagt fram þingsályktunartillögu þar sem við ályktum að fela samgönguráðherra að undirbúa frumvarp til laga sem tryggi að allir landsmenn eigi kost á háhraðanettengingu óháð búsetu og að málið verði afgreitt hið fyrsta. En nú ríður á þverpólitískri sátt um málið og að koma því í gegnum þingið í vetur.

Í skriflega svarinu sem samgönguráðherra lagði fyrir 130. löggjafarþing kemur fram að á þeim tíma höfðu yfir 22 þús. Íslendingar ekki slíka tengingu. Síminn og fjarskiptafyrirtækin mátu það svo að það væri ekki arðvænlegt að leggja háhraðatengingar að byggðarlögum þar sem eru færri en 150 íbúar, hvað þá í allar hinar dreifðu byggðir. Það verður að leita leiða til að tryggja þessum byggðum og smærri stöðum háhraðatengingar eftir þeim leiðum sem færar eru. Nokkur einkafyrirtæki eins og eMax, Ábótinn og fleiri bjóða núna upp á nokkurs konar háhraðatengingar í gegnum gervihnött. Það er að sjalfsögðu mikil bót fyrir þau svæði þar sem slíkt er og ekki kostur á öðru en varanleg lausn þarf að koma til á þessu, varanleg lausn á háhraðanettengingu fyrir alla Íslendinga. Það er óásættanlegt að svo sé ekki. Þær byggðir verða einfaldlega ekki raunhæfur búsetuvalkostur og fráleitar í dag, eftir upplýsingabyltinguna, eftir netbyltinguna, þessi gífurlegu tækifæri sem þau bjóða okkur öllum upp á og ekkert síður hinum dreifðu byggðum þar sem t.d. möguleikar til náms eru byltingarkenndir miðað við það sem áður var. Allt kallar þetta á háhraðanettengingu. Annað stendur ekki undir því og því spyr ég hæstv. samgönguráðherra þessarar spurningar.