133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ.

119. mál
[18:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 9. þm. Suðvest. spyr um uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ, hvort áætlun ráðuneytisins frá árunum 2002–2007 um að veita 100 millj. kr. til þessa verkefnis hafi gengið eftir, hvort ég hyggist beita mér fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ, hvenær framkvæmdir muni hefjast og þá hvenær áætlað sé að heimilið taki til starfa.

Virðulegur forseti. Því er til að svara að í áætlunum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefur verið horft til þess að í Mosfellsbæ er ekkert hjúkrunarheimili. Það er óviðunandi til lengdar fyrir svo stórt bæjarfélag. Mosfellingar hafa þó ekki verið úrræðalausir því að gott samstarf hefur verið milli bæjarfélagsins og hjúkrunarheimilisins Eirar um vistun aldraðra íbúa bæjarfélagsins sem þurft hafa á hjúkrunarvist að halda.

Mosfellsbær hefur staðið ágætlega að uppbyggingu þjónustu við aldraða í bæjarfélaginu, bæði varðandi húsnæðismál, með uppbyggingu þjónustuíbúða, með heimaþjónustu fyrir aldraða og öðrum stuðningi við aldraða sem búa heima. Þá eru níu dagvistarrými í Hlaðhömrum sem einnig eru til mikils stuðnings öldruðum í heimahúsum.

Virðulegi forseti. Spurt er hvort fylgt hafi verið eftir áætlun ráðuneytisins fyrir árin 2002–2007 sem gerði ráð fyrir 100 millj. kr. uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ. Áhersla hefur verið lögð á fjölgun hjúkrunarrýma þar sem þörfin hefur verið brýnust. Brýnasta þörfin hefur m.a. verið í Reykjavík þar sem ákveðið var að byggja upp 200 rými. Þau eru að rísa á næstunni. Lögð hefur verið áhersla á hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut og á Lýsislóðinni.

Samkvæmt niðurstöðum nefndar hæstv. forsætisráðherra, með fulltrúum stjórnvalda og aldraðra, var ákveðið að auka verulega fé til uppbyggingar nýrra hjúkrunarrýma og skiptir miklu að verja þeim fjármunum vel. Það er mat okkar að þau sveitarfélög þar sem brýnast er að sinna uppbyggingu séu Kópavogur, Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Garðabær, Reykjanesbær, Árborg og Ísafjörður. Áætlun stjórnvalda um uppbyggingu á þessum stöðum kynnti ég nýlega opinberlega. Jafnframt hef ég átt fund með fulltrúum áðurtalinna bæjarfélaga til að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir og ákveðið að skipa samráðshópa um framkvæmdir á hverjum stað með fulltrúum viðkomandi bæjarfélags og ráðuneyti.

Samkvæmt ákvörðun minni verða byggð 20 hjúkrunarrými í Mosfellsbæ. Ég átti nýlega fund með fulltrúum sveitarstjórnar Mosfellsbæjar vegna þessa nýja hjúkrunarheimili. Gert er ráð fyrir að undirbúningur framkvæmda hefjist um mitt næsta ár og framkvæmdir hefjist síðari hluta ársins 2008. Gangi áætlanir ráðuneytisins eftir má ætla að nýtt hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ geti tekið til starfa í lok árs 2008.

Eftir að fyrirspurn hv. þingmanns var lögð fram hefur staðan gjörbreyst. Nú er búið að taka ákvörðun um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ. Ég tel að það hafi verið mjög brýn ákvörðun vegna þess sem koma fram í máli hv. þingmanns, að ekkert rými er innan sveitarfélagsins. Mosfellsbær hefur verið í samstarfi við Eir þannig að aldraðir Mosfellingar hafa þurft að fara út fyrir bæjarfélagið. Ég tel eðlilegt að við byggjum á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu upp hjúkrunarrými og hjúkrunarheimili sem ekki þurfa að vera stórar byggingar með mjög mörgum rýmum. Við höfum færst frá þeirri hugmyndafræði sem ríkti á sínum tíma, að byggja mjög stórar einingar. Þá var talað um hagkvæmni í slíkum byggingum en nú hafa menn færst í átt að því að byggja víðar og byggja sums staðar minni einingar. Þarna er verið að ræða um 20 rýma einingu.

Hins vegar munu gjöldin sem fara til rekstrar, þ.e. daggjöldin, taka mið af stærð heimila. Við munum borga álag á þeim heimilum sem eru minni eða lítil. Heimili með 20 manns og færri fá t.d. 6% álag á daggjöld. Þau sem eru með 40 eða færri fá 4% álag og þau sem eru 60 manna eða færri fá 2% álag. Þannig verður tekið tillit til þeirra eininga sem eru óhagkvæmari í rekstri.