133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[19:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað sem segja má um fyrrverandi iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur, eins og hún hefur kynnt stefnu Framsóknarflokksins, þá gerði hún það að mínu viti einarðlega. Hún hefur sagt að hún sjái ekki eftir því sem hún hafi gert.

Síðan kemur hv. þm. Hjálmar Árnason og vill ekki einu sinni viðurkenna fyrrverandi iðnaðarráðherra sinn og reynir að segja Alþingi að búið sé að skipta um skoðun af því að kominn er nýr iðnaðarráðherra. Leyfið mér að taka upp hanskann fyrir Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra. Hún stóð á sínum málum og gerði það af myndugleik þótt við værum gjörsamlega ósammála henni. Hún kveinkaði sér ekki undan því að hún væri gagnrýnd fyrir stefnuna sem hún framfylgdi af hálfu Framsóknarflokksins.

Svo kemur hv. þm. Hjálmar Árnason og vill ekki viðurkenna fyrrverandi iðnaðarráðherra eða það sem hún hefur sett fram í nafni ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það aumt. Maður getur deilt um málin og verið annarrar skoðunar en að halda því fram að það breyti um stefnu hjá Framsóknarflokknum að nýr iðnaðarráðherra taki við finnst mér dapurlegur málflutningur.

Hvað segir hv. þingmaður við því að tæknilega fá tvö sveitarfélög, Reykjavíkurborg og Akureyri, skipt á milli sín 30 milljörðum kr. af almannafé? Hvað segir hann um það í ljósi þess sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson þingmaður Framsóknarflokksins lýsti fyrr í dag, að fjármagn sem þau hefðu að litlu leyti eða ekki lagt til, skuli úthlutað þeim? Skyldi það vera af því að þarna sitja framsóknarmenn og sjálfstæðismenn alls staðar kringum borðið? Eru það ekki framsóknarmenn og sjálfstæðismenn sem ráða Reykjavíkurborg? Eru það ekki sjálfstæðismenn (Forseti hringir.) og framsóknarmenn sem ráða Alþingi?

En ég tek upp hanskann fyrir Valgerði Sverrisdóttur, frú forseti.