133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[20:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun sem hér hefur verið til umræðu. Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að gerð verði breyting á fyrirsvari ríkisins varðandi eignarhluti í Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða og Rarik. Í öðru lagi er lagt til að fjármálaráðherra leggi allan eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða og Rarik inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Í þriðja lagi er lagt til að gerð verði breyting á lögum um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins þannig að eytt verði óvissu um skattalega meðferð við stofnun hlutafélags um fyrirtækið.

Samkvæmt lögum um stofnun hlutafélaga um Hitaveitu Suðurnesja, Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins fer iðnaðarráðherra, ýmist einn eða ásamt fjármálaráðherra, með eignarhlut ríkisins í fyrirtækjunum. Er það frávik frá þeirri skipan sem almennt var komið á meðferð slíkra eigna með reglugerð um Stjórnarráð Íslands en þar segir að fjármálaráðuneytið fari með mál er varða „eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar þeirra vegna, meðal annars að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis“.

Með hliðsjón af þessu hefur verið ákveðið að fjármálaráðherra skuli alfarið taka við eigandahlutverki ríkisins gagnvart orkufyrirtækjum í þess eigu. Þetta er gert í ljósi þess að óheppilegt getur verið að handhöfn vegna eignarhalds sé hjá sama ráðherra og fer með almenna stjórnsýslu á sviði auðlinda- og orkumála. Hvað varðar Orkubú Vestfjarða og Rarik verður þetta fyrirsvar óbeint hjá fjármálaráðherra því í frumvarpinu er lagt til að eignarhald ríkisins í fyrirtækjunum færist til Landsvirkjunar en að fyrirsvar vegna eignarhalds ríkisins í Landsvirkjun verði hjá fjármálaráðherra.

Í samræmi við framangreinda ákvörðun er með frumvarpi þessu leitað eftir viðeigandi breytingum á lögum og verði frumvarpið að lögum færist meðferð hlutafjár ríkisins í fyrirtækjunum til fjármálaráðherra um áramót.

Lögð er til sú breyting á lögum um stofnun hlutafélaga um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins að stjórnir félaganna skuli skipaðar þremur til fimm mönnum. Á grundvelli þessarar heimildar mætti síðar fækka stjórnarmönnum úr fimm í þrjá með breytingu á samþykktum félaganna en gert er ráð fyrir að skipan stjórna félaganna verði óbreytt, a.m.k. fram að aðalfundum í félögunum á næsta ári.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra leggi allan eignarhlut ríkisins, annars vegar í Orkubúi Vestfjarða og hins vegar í Rarik, inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkisins en íslenska ríkið á og fer með 100% hlut í báðum fyrirtækjunum. Með því verða Orkubú Vestfjarða og Rarik að fullu dótturfélög Landsvirkjunar sem fer eftir það með eignarhlutina. Með breytingunni má ná fram ýmiss konar þróun í rekstri fyrirtækjanna.

Í upphafi samningaviðræðna um kaup á Landsvirkjun var gert ráð fyrir að Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða yrðu sameinuð í eitt fyrirtæki eftir að ríkissjóður hefði leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Með því hefði ríkið sameinað eigur sínar á raforkumarkaði í eitt fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og sölu. Í frumvarpinu er hins vegar horfið frá þessu og nú lagt til að Orkubú Vestfjarða og Rarik verði áfram rekin sem sjálfstæð hlutafélög en að fjármálaráðherra leggi alla eignarhluti ríkisins í Orkubúi Vestfjarða og Rarik inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkisins eins og áður sagði. Þessi sömu fyrirtæki stofnuðu fyrr á þessu ári fyrirtækið Orkusöluna ehf. til að annast raforkusmásölu og var stofnun þess fyrsti vísirinn að framtíðarsamstarfi fyrirtækjanna.

Hér er að þessu sinni stigið afmarkað skref í þróun og skipulagi þessara opinberu fyrirtækja og þar með varðandi mótun orkumarkaðarins en ekki er um sameiningu eða samruna fyrirtækjanna að ræða í eitt sameinað fyrirtæki. Miðað við fyrri umræður um þessi mál á fyrri stigum aðdragandans á umliðnum missirum er nauðsynlegt að hafa þetta í huga nú en áður hefur m.a. verið rætt opinberlega um hlutafélög og samrunaferli í þessu samhengi. Nú er aðeins stigið skref í tengslum við kaup á eignarhlutum og fyrirkomulag eigna ríkissjóðs. Afstaða gagnvart lánardrottnum og viðskiptaaðilum breytist ekki að öðru leyti enda um sama rekstrarform áfram að ræða. Frekari þróun síðar ber að meta og ákvarða út frá viðskiptalegum sjónarmiðum í samræmi við mótun raforkumarkaðarins og samkeppnisaðstæður.

Hitt liggur áfram alveg ljóst fyrir að ríkissjóður er eini eigandinn og á þessi fyrirtæki að öllu leyti einn eftir þau kaup sem nú hefur verið samið um. Þetta mun ekki breytast nema með sérstakri ákvörðun Alþingis ef til slíks kemur. Í þessum áfanga er einnig stigið skref varðandi fyrirsvar fyrir þessum eignum og varðandi eignarfyrirkomulag af hálfu ríkissjóðs eins og áður segir.

Lög um skattskyldu orkufyrirtækja, nr. 50/2005, tóku gildi 30. maí 2005 og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2007 vegna tekna ársins 2006. Rafmagnsveitur ríkisins hafa samkvæmt þeim lögum verið skattskyldar frá upphafi ársins 2006 óháð stofnun hlutafélags um rekstur þeirra. Yfirfærslan sem átti sér stað 1. ágúst sl. með breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins hefur sem slík ekki skattskyldu í för með sér. Hins vegar er lögð til sú breyting að hlutafélagið yfirtaki allar skattaréttarlegar skyldur og öll skattaréttarleg réttindi sem að öðrum kosti hefðu fallið á Rafmagnsveitur ríkisins vegna rekstrar þeirra á tímabilinu 1. janúar til 1. ágúst 2006. Er þeirri yfirtöku ætlað að taka til allra skatta, þar með talið tekjuskatts, virðisaukaskatts og tryggingagjalds. Tillaga þessi er til samræmis við það tímamark yfirtöku sem lagt var til í frumvarpi því til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins sem samþykkt var á síðasta þingi. Jafnframt er lagt til að áréttað verði að yfirfærsla eigna skuli í skattalegu tilliti miðast við verðmæti eigna að gerðu endurmati samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 50/2005.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frumvarp og legg til að því verði vísað til hv. iðnaðarnefndar og 2. umr.