133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[20:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Því miður er þetta ekki rétt. Það eru komnir nýir lögaðilar sem hlutast til um þarna. Verið er að stofna nýtt hlutafélag sem hæstv. ráðherra minntist á, eitthvert sýndarhlutafélag í fjármálaráðuneytinu sem á að fara með þessa hluti, það er nýr lögaðili. Það eru að koma nýir lögaðilar sem fara með eignarhald og málefni Rariks og Orkubús Vestfjarða. Það er verið að hræra býsna mikið saman, þetta er bara fullkomin skrumskæling. Má ég þá biðja um fyrrverandi iðnaðarráðherra sem skammaðist sín ekkert fyrir einkavæðingaráform sín. Hún gerði það ekki, heldur kom hreint til dyranna með þau (Gripið fram í.) en ekki svona bakdyramegin í einni fléttu.

Aftur til þeirra Skagfirðinga sem þvingaðir voru á sínum tíma, undir forustu Framsóknarflokksins, til að selja Rarik Rafveitu Sauðárkróks sem var þeim mjög dýrmæt, var þeim stoð og stytta og skaffaði ódýrt rafmagn á Sauðárkróki, þeir voru þvingaðir til að selja hana Rarik gegn því að Rarik yrði áfram hrein ríkiseign, ekki hlutafélag heldur hreint ríkisfyrirtæki. Það voru rökin á sínum tíma. Nú hafa bæði Norðurorka og Skagafjarðarveitur farið fram á — að mig minnir, ég hef nú bréfin, fyrir einu eða tveimur árum og ítrekuðu það — að ræða það að kaupa þessa hluti til baka en hafa ekki fengið svar vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra segir að málið sé í öðrum ferli. Já, við vitum að það er í einkavæðingarferli og það er þess vegna sem Norðurorka og Skagafjarðarveitur vilja kaupa aftur sína hluti á þjónustusvæðum sínum vegna (Forseti hringir.) þess að þetta er í einkavæðingarferli.