133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[20:51]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum á orkusviði og vissulega er þetta mál nátengt og samtengt því máli sem við ræddum á undan. Ég vil segja það strax að sumt af því sem hér er lagt til er mér ágætlega þóknanlegt, við höfum reyndar lagt það til áður t.d. að fjármálaráðherra fari með eignarhlutinn í þessum orkufyrirtækjum frekar en iðnaðarráðherra. Það hefur komið fram mjög sterk krafa um það frá aðilum sem eru að kljást á þessum markaði að iðnaðarráðherra verði ekki áfram sá sem hefur eignarhaldið á sinni hendi, einfaldlega vegna þeirrar stöðu sem sá ráðherra hefur gagnvart þeim fyrirtækjum sem eiga í samkeppni á markaðnum og þurfa að sækjast eftir því að fá að nýta auðlindir.

Við lögðum fram tillögu um það á síðasta þingi við afgreiðslu mála að eignarhaldið yrði fært til fjármálaráðherra en sú tillaga var reyndar felld á síðasta vori. En þó svo að við séum sammála þeirri gjörð sem þarna er áætluð getum við ekki samþykkt þessar greinar, vegna þess að í þeim er líka gert ráð fyrir að eignarhlutur ríkisins í viðkomandi fyrirtækjum verði lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Við erum einfaldlega ekki tilbúin til að samþykkja það og við teljum að fyrir því vanti líka rök. Ég verð því að kalla enn og aftur eftir rökum hæstv. ráðherra fyrir þessari leið.

Í fyrsta lagi: Hvers vegna er þörf á þessu? Hæstv. ráðherra segir að eiginfjárstaða Landsvirkjunar sé traust. Þá er ekki þörf á því að leggja þetta inn til Landsvirkjunar af þeim ástæðum að eigið fé vanti í Landsvirkjun og hvers vegna er þá verið að þessu? Ekki getur verið að það sé betra fyrir samkeppnina á markaðnum að búa til sem allra stærst fyrirtæki um eignarhaldið. Ég bið hæstv. ráðherra að fara yfir þetta í ræðu sinni og útskýra það fyrir okkur hv. þingmönnum sem hér erum og þeim sem á hlýða hver rökin eru fyrir því að sameina þessi fyrirtæki undir einn hatt.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra, sem einnig er ráðherra viðskiptamála, hvort hann hafi ekki neinar áhyggjur af kærum vegna þess samruna sem hér er fyrirhugaður á markaðnum, hvort aðilar sem taka eiga þátt í þessari samkeppni muni verða sáttir við það að búinn sé til slíkur risi, enn þá stærri risi en fyrir hendi er á þessum markaði og að hann sé bæði í heildsölunni og smásölunni. Ég fer fram á að hæstv. ráðherra skoði það og fari yfir það. Hæstv. ráðherra talar um að ríkisstjórnin vilji þroska og þróa orkumarkaðinn í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, en frá því að farið var að ræða þessi mál, alveg frá því að ríkisstjórnin lagði af stað í þann leiðangur að búa til samkeppnisumhverfi á raforkumarkaðnum, hafa menn talað um EES-samninginn og að í raun og veru væri þrýstingur á okkur frá því samstarfi okkar við aðrar þjóðir að búa til slíkt samkeppnisumhverfi og að þróa og þroska orkumarkað á þann hátt sem gert er í löndunum í kringum okkur. Getur verið að þetta sé rétta leiðin til þess að þróa og þroska slíkan orkumarkað og samkeppnisumhverfi á þeim markaði? Ég get ekki séð það og mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að leggja svolítið á sig til að útskýra það betur, bæði fyrir mér og öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það kann vel að vera að eitthvað hafi farið fram hjá mér sem styður það að þessi leið skuli farin og ég bið þá hæstv. ráðherra að fara yfir það.

Ég get svo sem vísað til þeirra ræðuhalda sem fóru fram í dag og bæði ég og aðrir höfum haft uppi um fyrra málið, því að vissulega eru þessi mál það samtengd að ekki er hægt annað en tala um sömu hlutina í tengslum við þau bæði. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði í dag um fyrra málið en ég óska eindregið eftir því að hæstv. ráðherra útskýri þessi mál betur en mér finnst hann hafa gert fram að þessu.

Hæstv. ráðherra talaði um úrelt viðhorf til markaðar, að menn hefðu verið að tala fyrir úreltum viðhorfum til markaðar. Ég tel að hæstv. ráðherra skuldi okkur svolitla skýringu á því hvers konar viðhorf hann hefur til markaða og hvernig sú leið sem hér er kynnt, með samruna eða sameiningu þessara orkufyrirtækja undir einum hatti, getur farið saman við það að ætla sér að búa til markaðsumhverfi þar sem samkeppni getur orðið um þjónustu og sölu á raforku til notenda hér á landi.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Það er ekki ástæða til að endurtaka það sem komið hefur fram fyrr í dag en ég bíð spenntur eftir því að hlusta á betri rök hæstv. ráðherra fyrir þeirri leið sem hann hefur verið að kynna með þessum málum.