133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

357. mál
[16:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, vegna framlengingar á tímabundinni lækkun olíugjalds og breytinga á refsiákvæðum.

Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er fyrst og fremst verið að bregðast við vandamálum sem komið hafa upp við framkvæmd laganna um olíugjald og brýnt er að koma í rétt horf sem fyrst.

Í fyrsta lagi er með frumvarpinu lagt til að kveðið verði á með skýrum hætti að sala olíu um borð í varðskip og skip sem notuð eru í atvinnurekstri og skráð eru 6 metrar eða lengri sé undanþegin olíugjaldi. Við slíka afhendingu er ekki gerð krafa um að í olíuna sé bætt litar- eða merkiefnum. Í reglugerð um litun á gas- og dísilolíu er að finna ákvæði þess efnis en rétt þykir að skjóta styrkari stoðum undir það ákvæði.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til umfangsmiklar breytingar á ákvæðum sem snúa að endurákvörðun, refsingu, kæruheimild, málsmeðferð og eftirliti. Ekki er lagt til að gerð verði breyting á því hvað teljist vera refsiverð háttsemi frá því sem er í núgildandi lögum. Stefnt er að því að refsingar við brotum á lögunum verði gagnsærri og beiting þeirra skilvirkari. Breytingarnar felast einkum í því að sektarákvæði verði ákveðin krónutala en ekki afleiddar af þeirri ætluðu fjárhæð sem undan er dregin og er í núgildandi lögum.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að tímabundin lækkun olíugjalds verði framlengd til loka næsta árs.

Frá því að olíugjald var tekið upp hefur heimsmarkaðsverð á dísilolíu oftar en ekki verið hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Spár gera ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á dísilolíu verði á næstu missirum að jafnaði hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Mikilvægt er að innbyrðis samræmi sé í skattlagningu á dísilolíu og bensíni þannig að dísilknúnar fólksbifreiðar verði álitlegri kostur fyrir einstaklinga en þær hafa verið hingað til. Með vísan til framangreinds er með frumvarpi þessu lagt til að þessi tímabundna lækkun olíugjalds úr 45 kr. í 41 kr. verði framlengd á ný tímabundið til 31. desember 2007.

Ekki er áætlað að frumvarpið hafi umtalsverð áhrif á útgjöld við framkvæmd laganna en tekjur af sektum kunna að aukast nokkuð að minnsta kosti fyrst um sinn þar til tilætluð varnaðaráhrif verða komin fram. Framlenging á tímabundinni lækkun olíugjalds og sérstaks kílómetragjalds sem falla átti úr gildi um næstu áramót leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs verða um 450 millj. kr. lægri en ella hefði orðið. En þegar hefur verið reiknað með því í forsendum tekjuliða fjárlagafrumvarps fyrir árið 2007. Ekki er því gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.