133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

aðgerðir gegn skattsvikum.

106. mál
[12:27]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna þessari umræðu hérna því að skýrslan sem hér um ræðir vakti mikla athygli á sínum tíma. Þar kom fram að skattsvik eru á fjórða tug milljarða kr., gríðarlega umfangsmikil. Þess vegna veldur það miklum vonbrigðum að hæstv. fjármálaráðherra skuli koma hér tveimur árum síðar á hraða snigilsins og skila auðu. Það er ýmislegt verið að skoða og það er búið að velta vöngum yfir skýrslunni ágætu enda kom margt gott fram í henni. En ekkert hefur verið gert til að vinna gegn skipulögðum skattsvikum sem hafa, að því er margir halda fram, aukist verulega á þessum tveimur árum í staðinn fyrir að stjórnvöld hafi gripið til harðra aðgerða gegn þeim með eftirliti og hvers kyns aðgerðum. Skattaparadísirnar blómstra áfram, skipulögð skattsvik fara fram í auknum mæli ef eitthvað er, kaupaukar og slíkir hlutir ágerast ef svo má segja og neðanjarðarhagkerfið með tugmilljarðaskattsvikum blómstrar.

Stjórnvöld hafa ekkert gert. Þau hafa sofið á verðinum og skila núna auðu. Það eru mikil vonbrigði að heyra svar hæstv. fjármálaráðherra í þessu máli, að þau hafi á þessum tveimur árum ekkert gert annað en að velta fyrir sér hvað komi til greina að gera einhvern tímann seinna. Það eru að sjálfsögðu mikil (Forseti hringir.) vonbrigði hvernig hæstv. ráðherra hefur farið með þetta mál, mikil vonbrigði.