133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

ófaglært starfsfólk í heilbrigðisþjónustu.

240. mál
[12:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Viðbrögðin þurfa ekkert að standa á sér. Ég kannast ekki við það að neitt hafi verið klipið af. Í ágústmánuði sl. voru fjárveitingar til fyrirtækja í öldrunarþjónustu hækkaðar í samráði við þá samninga sem FSH gerði við félagsmenn í Starfsgreinasambandinu. Þar var gert ráð fyrir 12,6% hækkun þann 1. maí sl. sem samsvarar þriggja launaflokka hækkun. Síðan var 4% hækkun 1. september sl. Um áramót mun koma hækkun upp á 3,4% hjá hluta stofnana. Fjárveitingar til hjúkrunarheimila ákvarðast samkvæmt reiknilíkani sem byggir á staðalkostnaði hjúkrunarheimila þar sem tekið er tillit til hjúkrunartengdra sjúklinga. Þar sem byggt er á meðaltali kostnaðar allra hjúkrunarheimila er ljóst að óhjákvæmilega verða einhver frávik á kostnaði einstakra hjúkrunarheimila, enda eru þau með breytilega samsetningu vinnuafls og rekstraraðstæður ólíkar. Sem dæmi getur hlutfall félagsmanna úr Starfsgreinasambandinu verið breytilegt.

Fyrirliggjandi gögn frá hjúkrunarheimilum gefa ekki ástæðu til að ætla annað en að um eðlileg frávik sé að ræða sem skýrast af mismunandi aðstæðum á einstökum stofnunum. Ætlunin er að áramótahækkunin sem er að meðaltali 3,4% dreifist misjafnt á stofnanir eftir þörf, og mun heilbrigðisráðuneytið sjá um ráðstöfun þeirra fjármuna, líklegast með notkun reiknilíkansins.