133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Suðurlandsvegur.

137. mál
[13:48]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að það er þverpólitísk samstaða um það á Suðurlandi að tvöfalda eigi veginn tafarlaust frá Rauðavatni til Selfoss. En sú samstaða nær því miður ekki inn í Sjálfstæðisflokkinn af því að hæstv. samgönguráðherra hefur nú boðað að verkhönnun og útboð á 2+1 vegi á þessari leið eigi að hefjast um áramótin þar sem lagt er til að 2+1 vegur verði lagður og það verði látið duga til ársins 2030. Svo langt nær samhugurinn eða hin þverpólitíska samstaða. Hún nær ekki inn í þingflokk Sjálfstæðisflokksins, hún nær ekki inn í ríkisstjórnina. Hæstv. samgönguráðherra er með þessu að gera félaga sinn, hæstv. fjármálaráðherra, að ómerkingi orða sinna en allir þingmenn kjördæmisins og frambjóðendur í prófkjöri sjálfstæðismanna á dögunum boðuðu tvöföldun á Suðurlandsvegi alla leið. Um það efast enginn en samgönguráðherra er þar þrándur í götu og því er skorað á hann (Forseti hringir.) að láta af þrákelkni sinni í málinu og gera mönnum ekki þann óleik sem hann gerir hér.