133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sakaferill erlends vinnuafls.

304. mál
[14:42]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Það er rétt að hefja þetta svar á að geta þess að það er rangt hjá fyrirspyrjanda að ný lög um frjálst flæði vinnuafls hafi tekið gildi 1. maí sl. Hið rétta er að þann dag rann út gildistími tiltekinna ákvæða í lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga. Þar með voru afnumdar takmarkanir fyrir íbúa nýju Evrópusambandsríkjanna að íslenskum vinnumarkaði og því varð réttur til frjálsrar farar launafólks þessara ríkja hinn sami og borgara annarra aðildarríkja.

Nauðsynlegt er að gera greinarmun á EES-borgurum annars vegar og ríkisborgurum þriðju landa hins vegar, þ.e. útlendingum með ríkisfang í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Réttindi þessara hópa eru mjög ólík sem endurspeglast m.a. í því hvaða kröfur er unnt að gera til þessara hópa varðandi framlagningu á gögnum með umsókn um dvalarleyfi.

Þegar um ríkisborgara þriðju landa er að ræða er eitt af grundvallarskilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt útlendingalöggjöfinni að ekki liggi fyrir atvik sem geta valdið því að útlendingum verði meinuð landganga eða dvöl hér á landi, samanber 11. gr. laga um útlendinga, c-lið 1. mgr. Á það m.a. við hafi útlendingur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Útlendingi getur enn fremur verið meinuð landganga eða dvöl hér á landi hafi hann verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar eða þegar nauðsyn krefur vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

Til að ganga úr skugga um að fyrrnefndar aðstæður eigi ekki við um útlending þarf hann að leggja fram sakavottorð frá heimalandi sínu eða því ríki sem hann hafði búsetu þegar sótt var um dvalarleyfi hér á landi. Af þessu leiðir að sakaferill þriðju ríkisborgara er kannaður til að tryggja að þeir uppfylli eitt af grundvallarskilyrðum útlendingalaganna um komu og dvöl þeirra hér á landi.

Réttarsagan er hins vegar mjög ólík hjá EES-borgurum, enda veitir samningurinn um EES og stofnsamningur Fríverslunarsamtaka EFTA borgurum aðildarríkjanna mjög víðtækan rétt til að nýta sér aðgang að vinnumarkaði ríkjanna. Eitt af meginmarkmiðum þessara samninga er að afnema eins og kostur er allar hindranir sem takmarka réttinn til frjálsrar farar í aðildarríkjunum. Það er einfaldlega hluti af EES-samningnum að heimildir til að brottvísa borgurum aðildarríkjanna eða meina þeim um landgöngu eru mjög takmarkaðar. Íslendingar geta því unnið á meginlandinu jafnvel þótt þeir hafi verið dæmir fyrir einhver afbrot og hið sama gildir um borgara Evrópusambandsríkjanna hérlendis og borgara frá Noregi og Liechtenstein.

Það er ekki nægjanleg ástæða til að vísa borgara brott frá EES-ríki að þessi borgari hafi verið dæmdur til refsingar. Líta verður til þess um hvers konar afbrot viðkomandi gerðist sekur og gera heildarmat á því, dæmdri refsingu og réttindum og aðstæðum borgarans, því einungis er heimilt að vísa EES-borgara úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis. Í framkvæmd hafa stjórnvöld gengið eins skipulega og fast fram og unnt hefur verið gagnvart þeim sem hafa gerst brotlegir hér, t.d. hefur ávallt verið vísað brott ef um fíkniefnabrot er að ræða.

En viðleitni stjórnvalda er þrengri stakkur skorinn að þessu leyti en þau sjálf ætluðu því að Hæstiréttur hefur m.a. fellt úr gildi brottvísunarúrskurð dómsmálaráðuneytisins vegna litháísks borgara. Réttur EES-borgara til frjálsar farar leiðir til þess að ekki er heimilt að krefja þá um sakavottorð þegar þeir sækja um dvalarleyfi hér á landi.