133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:36]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fátt nýtt kom fram í þessu ágæta andsvari hv. þingmanns. Við höfum líklega tekið nokkrum sinnum svipaðar brýnur um svipuð mál en hv. þingmaður hefur yfirleitt vanið sig á að gera Seðlabankann að blóraböggli í þessum efnum.

Málið er hins vegar það, hv. þingmaður, að Seðlabankinn hefur ákveðið markmið, sem ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi samþykkt eins og ýmislegt annað sem frá ríkisstjórninni hefur komið, og Seðlabankinn bregst við því sem er hverju sinni. Hann hefur þetta markmið og hefur ekki aðrar leiðir en vaxtaákvörðunina. Við getum vissulega deilt um hvort vaxtahækkanir hafi verið nákvæmlega það sem við hefðum viljað í hvert skipti, en meginástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú, og það kemur fram í nefndarálitinu ef hv. þingmaður hefði nú hlustað eða lesið betur, að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa ekki verið í takt, hafa verið á stundum að fara hvor í sína áttina.

Vanþekkingin á hagkerfinu átti við það sem fram hefur komið hjá ýmsum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, að ríkisfjármálin skipti engu máli í efnahagsstjórninni. Það er það sem er verið að vitna í. Þetta hefur því miður komið ítrekað fram hjá nokkrum hv. þingmönnum og ef ég man rétt jafnvel hjá nokkrum hæstv. ráðherrum. Þegar það viðhorf er viðhaft skilur maður í betur umgengni meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar um fjárlögin og lög um fjárreiður ríkisins vegna þess að það er eins og þessi lög séu bara eitthvað sem eigi að vera upp á punt, eftir þessu eigi ekkert að fara.

Hv. þingmaður veit þetta mætavel og hefur á stundum náð sér þokkalega á strik þegar sú umræða hefur átt sér stað, en því miður ætíð að lokum verið í liðinu og fylgt liðinu á græna takkann.