133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg gott og blessað að setja nefnd í að endurskoða þetta. Það er sjálfsagt að gera það. En þær tillögur sem við leggjum hér fram til tafarlausra úrbóta á kjörum þessa fólks þurfa ekki að bíða. Þær eru skilgreindar. Það þarf ekki að umbylta neinu kerfi til að koma þeim til framkvæmda. Það er bara að taka ákvörðunina. Síðan má fara að skoða öll möguleg kerfi og endurskoða lífeyriskerfin. En gagnvart þessu fólki, gagnvart þessum tillögum, þarf þess ekki.

Þess vegna legg ég áherslu á það sem segir í tölvubréfinu sem ég las upp áðan, að það er ekki nóg að segjast vilja skoða allt með jákvæðum huga ef ekkert er gert. Það eru í rauninni bara verkin sem tala, tillögur okkar, velferðarflokkanna á þingi, sem viljum skipta þessari ríkisstjórn út, ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, meðal annars vegna aðgerðaleysis í málefnum elli- og örorkulífeyrisþega. Það er hægt að ganga nú þegar til verka.

Ég hef ekki minnt á hvernig einkavæðingin, símkostnaður og þjónustugjöld koma stöðugt líka harðar niður á þessu fólki, tekjulágu fólki, elli- og örorkulífeyrisþegum. Skólagjöld, stöðugt hærri námsvistar- eða skólagjöld koma líka langharðast niður á fólki með lægstar tekjur og í stöðu eins og ég hef verið að lýsa.

Þetta er allt saman verk þessarar ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Við þurfum að skipta um ríkisstjórn líka, frú forseti, en við þurfum að samþykkja þessa tillögu sem við leggjum hér til.