133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:28]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem komu á fund okkar í nefndinni, voru þetta einhverjir huldumenn? Hétu þeir ekkert? Hvaða fólk var þetta? Var það einhvers staðar utan úr geimnum eða hvaða fólk var að koma og segja ykkur einhverjar draugasögur? Ég hef ekki hugmynd um hverjir mættu þar. Mér er nokkurn veginn nákvæmlega sama hverjir það voru, alveg nákvæmlega sama, því að þeir hljóta að hafa verið að bulla.

Það liggur fyrir að frá því að við hófum framkvæmdir fyrir austan hefur nettóinnstreymi erlends fjármagns til Íslands verið í kringum 700 milljarðar. Virðisaukinn af virkjununum og verksmiðjunum eru 50–70 milljarðar. (Gripið fram í: Vaxta…) Hvort skyldi nú hafa haft meiri áhrif á þjóðfélagið, 700 milljarðarnir sem komu inn eða 70 milljarða virðisaukinn?

Það er nefnilega þannig að það hávaxtastig sem Seðlabankinn stendur fyrir, og hv. þingmaður veit að ég hef mótmælt árum saman, fær ekki staðist. Það getur ekki staðist og það er engin önnur leið til baka en að hverfa frá því, menn eru komnir undir grjót með þessa stefnu.

Þess vegna eigum við, og það tekur enginn eftir því í þinginu, að láta 90 milljarða inn í Seðlabankann með nýju láni. Þess vegna þurfum við, eins og ég sagði við 1. umr. fjárlaga, jafnvel að leggja 100 milljarða inneign okkar í Seðlabankann inn sem gjaldeyrisforða vegna þess að við verðum að komast út úr þessu vaxtastigi sem við getum ekki lifað við, hvorki almenningur, fyrirtækin né Seðlabankinn. Við það þurfum við að lifa. Og það eru ósannindi, hreinn tilbúningur, að það hafi verið ruðningsáhrif vegna virkjanaframkvæmda sem sett hafi svona mikinn þrýsting á efnahagslífið hér. Það er innstreymi erlendra peninga, sem komu hér vegna þess vaxtamismunar sem hafði verið búinn til, sem hefur valdið þeim óþægindum og þeim þrýstingi sem við höfum þurft að glíma við á umliðnum árum.