133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:31]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um fjárlög ársins 2007. Nú er málið komið út úr nefnd og hefur tekið á sig nokkuð breytta mynd. Ég hef lagt mig fram um að reyna að fylgjast með umræðunni hér í dag eins og hún hefur fram farið og ég verð að segja að það er ýmislegt í henni sem hefur vakið athygli mína eins og vænta mátti reyndar. Eins og venja er til einangrast umræðan við 2. umr. fjárlaganna ekki einungis við tillögur frá meiri eða minni hluta fjárlaganefndar heldur snýst hún ekkert síður um þær áherslur sem er að finna í frumvarpinu í meginatriðum og stöðuna í efnahagsmálum almennt. Margt hefur verið sagt í dag um stöðuna í efnahagsmálum sem ég hef athugasemdir við og jafnframt er margt í tillögum minni hluta fjárlaganefndar og umræðunni um þær tillögur sem ég hef athugasemdir við.

Í fyrsta lagi vil ég rifja upp það sem ég sagði við 1. umr. um þetta fjárlagafrumvarp, að það ber traustri stöðu ríkisfjármálanna gott vitni. Það er ótrúlega sterk staða í ríkisfjármálunum þegar við getum haldið áfram að lækka skuldir. Við lækkum skuldir svo mikið með þessu frumvarpi að við erum að komast í hóp með þeim ríkjum sem minnst skulda í hinum vestræna heimi. Það hefur verið lagt til grundvallar í þessu fjárlagafrumvarpi að vaxtatekjur ríkisins verði í fyrsta skipti hærri en vaxtagjöldin. Með þessu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir því að innstæða ríkisins hjá Seðlabankanum verði rúmlega 100 milljarðar og allt er þetta til vitnis um ótrúlega sterka stöðu í ríkisfjármálunum sem gerir okkur kleift á næstu árum að halda áfram þeirri uppbyggingu sem staðið hefur yfir undanfarin ár og aukið er við reyndar í þessu fjárlagafrumvarpi.

Það er hins vegar eitt sem ég hef dálítið saknað í dag og það er umræðan um aukið aðhald í ríkisfjármálunum. Vissulega hefur verið komið inn á það í umræðunum að ríkisendurskoðandi hafi gert athugasemdir við framkvæmd fjárlaga. Það er engin ástæða til að amast við þeirri umræðu. Það er afskaplega mikilvægt að vel takist til við framkvæmd fjárlaga og við eigum stanslaust að leita leiða til að tryggja að stofnanir haldi sig innan þess ramma sem þeim eru settar í fjárlögunum og að ríkisreikningurinn endurspegli þegar upp er staðið að hann sé í sem bestu samræmi við þær áætlanir sem fyrir fram voru gerðar um ríkisreksturinn. Ekki ætla ég að gera lítið úr mikilvægi þess en það sem ég saknaði úr umræðunni eru tillögur að leiðum til að tryggja betra samræmi þarna á milli, tryggja betra samræmi á milli fjárlagagerðarinnar og framkvæmdar fjárlaga og kannski ekki síður hugmynda sem væru líklegar til að draga úr aukningu ríkisútgjaldanna. Ég held að menn hafi í allt of ríkum mæli viljað forðast að horfast í augu við það að við þurfum að gera ákveðnar kerfisbreytingar til að á fjárlögum verði ekki sjálfkrafa útgjaldaaukning. Við gerum miklar kröfur til forstöðumanna stofnana í fjárlögunum og höldum þeim við efnið. Þekkt er sú aðferð að skilja menn eftir með afgang þegar menn hafa ekki haldið sig innan ramma sem þeim hefur verið settur. Ég hef fyrir mitt leyti ákveðnar efasemdir við þær aðferðir og kalla eftir samstöðu á þinginu um það að menn gangi til verkefna eins og þess að taka til skoðunar lög um opinbera starfsmenn sem afnemi til að mynda áminningarskylduna. Það er algerlega nauðsynlegt. Um leið og við gerum miklar kröfur til forstöðumanna stofnana þurfum við að skapa þeim umhverfi sem tryggir að þeir geti í rekstri sínum náð fram nauðsynlegum sveigjanleika alveg eins og gildir í öllum öðrum rekstri annars staðar í þjóðfélaginu.

Í þessu fjárlagafrumvarpi og í þeim breytingum sem er verið að gera hér við 2. umr. er gengið út frá því að virðisaukaskattur lækki. Menn þekkja það og komið hefur verið dálítið inn á það í umræðunum í dag að á þessum síðasta þingvetri kjörtímabilsins er ríkisstjórnin að ljúka við þær skattalækkanir sem rætt var um í upphafi kjörtímabilsins. Það birtist í mikilli lækkun á virðisaukaskatti og því ber að fagna sérstaklega að það skuli vera jafngott svigrúm til þeirra skattalækkana sem þar er um að ræða og raun ber vitni. Hér er um að ræða skattalækkanir sem koma heimilunum til góða, skattalækkanir sem munu ekki bara lækka matvöruverð heldur munu líka gagnast ferðaþjónustunni á Íslandi. Stór hluti af þeirri starfsemi sem ferðaþjónustan stendur fyrir á Íslandi mun fara í lægra skattþrepið. Þetta eru mjög jákvæðar breytingar á skattkerfinu og vel heppnaðar aðgerðir sem við bindum miklar vonir við að muni ekki bara verða til þess á næsta ári að draga úr verðbólgu heldur auka líka ráðstöfunartekjur heimilanna. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til að fagna hugmyndum um breytingar á virðisaukaskattskerfinu og á næstu dögum vænti ég þess að fram komi nýtt frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt auk þess auðvitað sem í sama vetfangi verða gerðar breytingar á vörugjöldum sem stefna í sömu átt, þ.e. til lækkunar matarverðs. Það má segja að þessar skattalækkanir séu lokahnykkurinn í langri hrinu skattalækkana sem stjórnarflokkarnir hafa beitt sér fyrir á þessu kjörtímabili og það fer vel á því að gengið sé jafnvel örlítið lengra en lagt var af stað með. Ég vil leyfa mér að fagna því líka að skattalækkanir stjórnarflokkanna á þessu kjörtímabili ganga ívið lengra en við gerðum ráð fyrir í upphafi kjörtímabilsins.

Það var töluvert mikil umræða um það fyrir síðustu kosningar hversu miklar skattalækkanir hægt væri að ráðast í á þessu kjörtímabili. Þeir sem fylgdust með á þeim tíma muna að stjórnarandstöðuflokkarnir voru með sínar hugmyndir og Sjálfstæðisflokkurinn tefldi jafnframt fram sínum hugmyndum og menn tóku saman þessar hugmyndir og reyndu að reikna það til raunvirðis ef flokkarnir næðu að hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum sem þar voru til umræðu.

Í umræðu um þær skattalækkanir sem við sjálfstæðismenn börðumst fyrir fyrir síðustu kosningar var almennt talið að þær mundu draga úr tekjum ríkissjóðs um u.þ.b. 16 milljarða. Uppreiknað til núvirðis eru það u.þ.b. 19 milljarðar. Ég hef látið taka það saman fyrir mig að tekjur ríkissjóðs á næsta ári verða u.þ.b. 23 milljörðum minni en ella hefði orðið ef ekki hefði komið til þeirra skattalækkana sem hrint hefur verið í framkvæmd á þessu kjörtímabili. Hvernig fara menn að því að lækka skatta um 23 milljarða á einu kjörtímabili, á sama tíma og stóraukið er við framlög til velferðarmála? Það er staðreynd að ekki bara á þessu kjörtímabili heldur ár eftir ár undanfarin ár hefur verið stóraukið við framlög til velferðarmála. Þetta geta menn séð af fyrirliggjandi gögnum um þetta efni. Það er í sjálfu sér alveg sama hvar menn drepa niður fæti, hvort menn vilja skoða framlög til heilbrigðismála, menntamála eða tryggingamála sem hafa mikið verið til umfjöllunar hér í dag, það er um verulega mikla aukningu að ræða. Ef við skoðum til að mynda skiptingu útgjalda eftir málaflokkum eins og hún birtist í töflu 5 í fyrri hluta fjárlagafrumvarpsins má sjá að á rekstrargrunni aukast framlög til heilbrigðismála frá ríkisreikningi á árinu 2004 þegar þau voru 75 milljarðar til meira en 90 milljarða í þessu frumvarpi. Eins og þessu frumvarpi var teflt fram 1. október var gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála yrðu 92,5 milljarðar. Því hefur síðan auðvitað verið haldið fram í umræðunni í dag að þessi gjöld séu vanáætluð. Við skulum bara ganga út frá því að þessi áætlun sé rétt og þá er niðurstaðan sú að það hefur verið aukið við framlög til heilbrigðismála um 17 milljarða á þessu kjörtímabili. Það er fyrir utan þær tillögur sem liggja síðan fyrir í sérstöku frumvarpi og gert er núna ráð fyrir í breytingartillögum.

Til almannatrygginga og velferðarmála hefur verið varið til viðbótar frá reikningi ársins 2004 21 milljarði. Ég gæti haldið áfram að tína upp úr einstökum málaflokkum í þessum fyrri hluta fjárlagafrumvarpsins. Það skiptir tugum milljarða sem við höfum bætt við í málaflokka eins og þessa. Hvernig förum við að þessu? Hér hafa menn í dag talað mikið um misskiptinguna og ójöfnuðinn sem núverandi ríkisstjórn hafi staðið fyrir, staðið fyrir aukinni misskiptingu tekna í þjóðfélaginu, og helst virðist það fara í taugarnar á þeim sem láta til sín taka í þeirri umræðu að sumir hafi aukið meira við tekjur sínar en aðrir.

Það er tínt til að við höfum afnumið hátekjuskattinn. Það er jafnvel talað um eignarskattinn þó að u.þ.b. tveir þriðju þeirra sem greitt hafa eignarskatt hafi verið komnir yfir 65 ára aldurinn á meðan eignarskatturinn sálugi var enn við lýði. Það er talað um lækkun almennu tekjuskattsprósentunnar. Síðan er auðvitað líka talað um hið klassíska, að persónuafslátturinn hafi ekki verið tengdur við launavísitölu. Nú liggur fyrir áætlun ríkisstjórnarinnar um að tengja persónuafsláttinn við neysluverðsvísitöluna. Ég hef ekki heyrt nein sérstök fagnaðarlæti út af því í þingsölum frá þeim sem mest hafa kallað eftir þeirri breytingu. Það á síðan eftir að koma í ljós hvað þetta í raun og veru kostar ríkissjóð í tekjutapi. Ég hygg að það sé heldur varlega áætlað sem menn hafa horft til þar.

Hverju hefur einkavæðingarferlið skilað? Hverju hefur það skilað sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir hér, að lækka fyrirtækjaskattinn í þrepum úr því sem hann var — við skulum ekki gleyma því að fyrirtækjaskattur var hér fyrir ekkert löngu síðan 50% og er kominn núna niður í 18% — og hverju hefur það skilað að endurskilgreina fjármagnstekjuskattinn og breyta honum til lækkunar niður í 10%? Hverju hefur það skilað að lækka skattana og auka frelsið? Hverju hefur það skilað að láta ríkið draga sig út úr rekstri skipafélaga, útgerðarfyrirtækja, (Gripið fram í.) bankanna? Hverju hefur þetta skilað? (Gripið fram í.)

Við getum skoðað hvaða áhrif þetta hefur haft á tekjur ríkisins vegna þess að auðvitað liggur fyrir hver opinber gjöld lögaðila hafa verið ár frá ári. Það er fróðlegt að skoða þessar tölur í samhengi við þau útgjöld sem menn tefla hér fram og leggja til að bætt verði við í fjárlögin við 2. umr. fjárlaganna. Tekjuskattur lögaðila, greiddur á árinu 2001, var 9,1 milljarður. Þetta var fyrir fimm árum. Á þessu ári er áætlað að tekjuskattur lögaðila verði 34,7 milljarðar. (Gripið fram í: … tekjuskatturinn … 50%.) Það er laukrétt hjá hv. þingmanni sem grípur hér fram í að þetta skilar stórauknum tekjum í ríkissjóð, skattalækkunaraðferð stjórnarflokkanna. Bara þessi eini tekjuliður, tekjuskattur lögaðila, hefur hækkað um 25 milljarða frá árinu 2001.

Ef við tökum opinber heildargjöld lögaðila, hvað lögaðilarnir greiða á þessu ári til ríkisins til viðbótar við það sem þeir gerðu árið 2001, eru það engar smátölur. Það eru 43 milljarðar sem lögaðilar greiða til viðbótar til ríkisins. Það er með þessari aðferðafræði, að leysa úr læðingi krafta einstaklingsframtaksins á vinnumarkaðnum, úti í atvinnulífinu, sem tekist hefur að auka umsvifin á Íslandi samhliða því að skattarnir hafa lækkað, og það eru þessar aðgerðir sem eru grundvöllurinn undir þeirri aukningu til velferðarmála sem má finna í þessu fjárlagafrumvarpi og menn geta rakið hér ár fyrir ár aftur í tímann. Þetta er grundvöllurinn.

Ef ekki væri þessi grundvöllur gæti minni hluti fjárlaganefndar ekki komið hér við 2. umr. fjárlaga og lagt til 13,4 milljarða aukningu til öryrkja og lífeyrisþega. Það er hin raunverulega tillaga minni hluta fjárlaganefndar, sem kölluð er 7,4 milljarða hækkun. Ef borið er saman við gildandi lög um efnið, ekki við fjárlögin vegna þess að í þessum fjárlögum er ríkisstjórnin þegar búin að bæta inn á næsta ári tæpum 6 milljörðum til þessara hópa, öryrkja og lífeyrisþega, ef við tökum bara grunninn eins og hann er í dag, á árinu 2006, og skoðum hvað tillögur minni hluta fjárlaganefndar þýða þýða þær 13,4 milljarða. Það er auðvitað algjörlega fráleitt að koma hingað í þingsal og hlýða á ræður þar sem menn býsnast yfir þeirri stefnu sem hér hefur verið rekin, sem hefur lagt grunninn að þeirri gríðarlegu tekjuaukningu sem orðið hefur hjá ríkinu á forsendum aukinna umsvifa í atvinnulífinu þar sem lögaðilar í dag greiða 43 milljörðum meira til ríkisins en þeir gerðu fyrir örfáum árum. Þetta eru forsendurnar. Menn býsnast yfir þessu, kalla þetta misskiptingu auðs og kalla helst eftir því að sem flestir af þessum aðilum flytji lögheimili sitt til útlanda vegna þess að þá gætum við jafnað stöðuna niður á við en á sama tíma koma þessir aðilar og leggja til 13,4 milljarða til öryrkja og lífeyrisþega. (Gripið fram í: Hvernig færðu þetta út?) 13,4 milljarðar eru samanlagðar tillögur ríkisstjórnarinnar og minni hluta fjárlaganefndar. (Gripið fram í: Ókei.) Tillögur minni hluta fjárlaganefndar eru 7,4 milljarðar ofan á tillögur ríkisstjórnarinnar. Við skulum ekki gleyma því að tillögur ríkisstjórnarinnar (JBjarn: Þær eru til tveggja ára.) munu strax á næsta ári kosta mikla fjármuni. (Gripið fram í.) Á árinu 2006, á yfirstandandi ári, kosta þær breytingar sem byggja á samkomulagi sem gert var fyrr á árinu við þessa hópa, og menn hafa ýmist kallað samkomulag eða yfirlýsingu og eitthvað hefur verið tekist á um það en við vitum hvað ég á við hér, tæpa 2 milljarða en strax á næsta ári 5,5 milljarða. Síðan má bæta við þá fjárhæð u.þ.b. 300 millj. vegna þess að lagt er til að frítekjumarkið upp á 300 þús. kr. komi til framkvæmda strax um næstu áramót og það mun kosta nokkur hundruð milljónir.

Þetta er sá veruleiki sem við erum að ræða um hér við 2. umr. fjárlaga. Það sem stjórnarandstaðan hefur keppst við að kalla hér misskiptingu og aukinn ójöfnuð í þjóðfélaginu er þegar öllu er á botninn hvolft forsenda þeirra auknu framlaga til velferðarmála sem þetta fjárlagafrumvarp endurspeglar.

Það hefur víða verið komið við. Hér hefur m.a. verið rætt um fæðingarorlof og því haldið fram að ríkisstjórnarflokkarnir séu að gera árás á fæðingarorlofskerfið. Ég hef fulla samúð með þeim sem hafa bent á tilvik um þá sem til að mynda hafa eignast fleiri en eitt barn með skömmu millibili. Það má alveg halda því fram með ágætisrökum að þegar breytingarnar voru síðast gerðar á fæðingarorlofslögunum hafi menn ekki séð fyrir slík tilvik. Það verður samt sem áður að horfast í augu við það að allar breytingar í þessa átt kosta peninga.

Hver er staðreyndin varðandi fæðingarorlofið fyrst menn vildu taka það til umfjöllunar í þessari umræðu? Þegar frumvarpið kom fram á sínum tíma lá fyrir áætlun frá fjármálaráðuneytinu um það hvað breytingarnar mundu kosta. Með leyfi forseti ætla ég að lesa upp úr áætlun fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins:

„Gert er ráð fyrir að framangreindur kostnaður vegna fólks á vinnumarkaði verði fjármagnaður með tryggingagjaldi.“

Það segir í þessari áætlun:

„Áætluð heildarútgjöld frumvarpsins vegna fólks á vinnumarkaði árið 2001 eru um 2 milljarðar, árið 2002 um 2,5 milljarðar og árið 2003 um 3 milljarðar kr.“

Í millitíðinni hefur verið gripið til aðgerða til að tryggja betri fjármögnun á Fæðingarorlofssjóðnum vegna þess að útgjöldin urðu strax í upphafi meiri en menn sáu fyrir. Þegar frumvarpinu var teflt fram hér á þinginu sáu menn fyrir sér að þetta gæti siglt í 3 milljarða. Í þessu fjárlagafrumvarpi er varið til fæðingarorlofsmálanna yfir 7 milljörðum. Þetta er kallað í ræðum í dag aðför gegn fjölskyldustefnunni. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á slíkan málflutning.

Í umræðum um lífeyrismál finnst mér mjög mikilvægt að menn haldi til haga því sem gert hefur verið og skoði raunkostnað við hugmyndir minni hluta fjárlaganefndar eins og ég hef vikið að hér áður. Við hljótum öll að geta verið sammála um að til lengri tíma litið er það markmið hjá okkur að tryggja að þeir sem ljúka venjulegri starfsævi og komast á lífeyrisaldur eigi ekki að þurfa á neinni opinberri aðstoð að halda. Almannatryggingakerfið hlýtur að þessu leyti til til lengri tíma að vera fyrst og fremst hugsað til þess að koma til móts við þá sem af einhverjum orsökum hafa ekki átt möguleika á að vinna fulla starfsævi, ýmist vegna örorku eða annarra óhappa sem þeir hafa lent í á lífsleiðinni. Að þessu leytinu til er skyldusparnaðarkerfið skynsamlegt, það tryggir fólki framfærslulífeyri þegar á efri árin er komið.

Mér finnst mikilvægt að við förum að nálgast lífeyrismál eldri borgara með dálítið nýjum hætti og horfast í augu við þá staðreynd að núna eru á lífeyrisaldri og munu koma á lífeyrisaldur um eitthvert árabil — sem gætu verið u.þ.b. 10–15 ár — einstaklingar sem hafa ekki tryggt sér lífeyrisréttindi með þeim hætti sem tíðkast í dag og munu þar af leiðandi ekki hafa í einhverjum mæli framfærslu sem dugar samkvæmt þeim viðmiðum sem við getum verið sátt um. Þetta kallar á einhvers konar aðstoð frá hinu opinbera, frá almannatryggingakerfinu, en í allri umræðu um skerðingar finnst mér menn hafa farið fram úr sér og haldið því fram að skerðingar séu óeðlilegar í sjálfu sér. Auðvitað er ekkert óeðlilegt þegar við erum að tala um tekjutryggingu að það komi til skerðinga þegar einstaklingar hafa tekjur. Hvað er óeðlilegt við það að einstaklingur sem hefur, segjum, 300–400 þús. kr. í framfærslu þurfi að sæta skerðingum í bótagreiðslum frá ríkinu? Það er ekkert óeðlilegt við það, ekki neitt.

Dæmin sem fylgja frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sýna að jafnvel þeir sem eru yfir þessum viðmiðunarmörkum sem almennt er verið að tala um hér í umræðunni í dag munu geta fengið framlög frá tryggingakerfinu. Við getum tekið dæmi um örorkulífeyrisþega sem á maka sem er lífeyrisþegi með 130 þús. kr. í lífeyrissjóðstekjur, og jafnvel slíkur örorkulífeyrisþegi, sem hefur 250 þús. í atvinnutekjur, mun eiga rétt á bótum eftir að þetta frumvarp verður gert að lögum. Auðvitað eru bæturnar hærri eftir því sem framfærslutekjurnar eru lægri og þannig á það auðvitað bara að vera. Það sem við þurfum að fara að ræða hérna af meiri alvöru á þinginu eru leiðir til þess að auka sparnað og tryggja enn betur en við gerum í dag að allir þeir sem komast á eftirlaunaaldurinn (Gripið fram í: … séreignarlífeyrissparnaðinn líka.) eigi möguleika á því að framfleyta sér með góðum og öruggum hætti. Séreignarlífeyrissparnaðurinn sem hefur verið til umræðu núna, sérstaklega í fréttatímum — það má halda því fram með góðum rökum að það sé óeðlilegt að þeir sem eru komnir langt á starfsævinni og leggja fyrir séreignarlífeyrissparnað þurfi að þola skerðingar á þeim réttindum sem þeir eiga fyrir hjá tryggingakerfinu. Ég get alveg tekið undir með þeim sem halda því fram. Ef við ætlum að halda í skerðingar hjá þessum hópi er enginn hvati til staðar fyrir viðkomandi til að leggja til hliðar í séreignarsparnað.

Þegar við horfum hins vegar til þeirra sem yngri eru er alveg augljóst að það er til staðar mikill hvati til þess að njóta þess skattafsláttar sem séreignarlífeyrissparnaðurinn býður upp á og það er enginn vafi hjá ungu fólki sem er úti á vinnumarkaðinum í dag að það er skynsamlegt að leggja til hliðar í þennan sparnað jafnvel þó að til skerðingar kæmi þegar viðkomandi fer á eftirlaunaaldur vegna þess að ávinningurinn af sparnaðinum yfir starfsævina er svo margfaldur á við þann rétt sem viðkomandi gæti mögulega átt gagnvart bótatryggingakerfinu ef ekki væri um neinn sparnað að ræða. Þannig kerfi eigum við að byggja upp og við eigum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og það er auðvitað grunnstefið í þessum frumvörpum til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem liggja fyrir þinginu. Við erum ekki að ræða þau hér heldur eru í fjárlagafrumvarpinu ýmsar afleiddar tölur þar vegna þess máls. Auðvitað er grunnstefið í því máli að stíga lengra í þá átt að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Það er grunnhugsunin á bak við það að lækka skerðingar.

Hver er munurinn á frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna og frumvarpi minni hluta fjárlaganefndar, til að mynda hvað skerðingarnar varðar? Ég hygg að munurinn sé sá að í frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna er gert ráð fyrir að skerðingarhlutfallið fari niður í 38,5% á meðan minni hluti fjárlaganefndar leggur til að skerðingarhlutfallið verði 35%. (Gripið fram í: Gleymdu ekki …) Það er staðreyndin varðandi skerðingarhlutföllin. Hér er verið að stíga stórt skref úr 45% niður í 38,35% þannig að þessu sé öllu til haga haldið. Lækkunin á skerðingarhlutföllum samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna er úr 45 niður í 38,35.

Síðan er komið að frítekjumarki frá áramótum upp á 300 þús. kr. á ári. Það er rétt sem fram hefur komið að minni hluti fjárlaganefndar gerir í sínum 13,4 milljarða litlu tillögum ráð fyrir því að lengra þurfi að ganga, það þurfi að færa frítekjumarkið upp í 900 þús. kr. Við getum lengi rifist um það hversu mikið er nóg í þessum efnum en það verður ekki sagt um það frumvarp sem stjórnarflokkarnir hafa teflt fram að það gangi ekki einmitt í sömu átt og minni hluti fjárlaganefndar leggur til vegna þess að þessar tillögur eru nákvæmlega sama eðlis, þær ganga bara misjafnlega langt. Það er hins vegar eitt mjög athyglisvert við tillögu minni hluta fjárlaganefndar í þessu efni þegar við ræðum skerðingar, það segir í þingsályktunartillögu sem er í fylgiskjali með málinu að frítekjur vegna atvinnutekna verði 75 þús. kr. á mánuði og síðan segir að skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði..

Hvað eru menn að fara hér? Hér eru menn væntanlega að fara inn á þá braut að jafnvel þeir sem hafa góðar lífeyristekjur og eru komnir á eftirlaunaaldur þurfa ekki að þola neina skerðingu á bótarétti sínum frá Tryggingastofnun. Ef þetta er hugsunin á bak við þetta orðalag held ég að menn séu á hraðri leið inn í gjaldþrotamódel sem menn eru að reynda að vinda ofan af víða í Evrópu þar sem gengið hefur verið of langt í sósíalismanum. Slíkt óðagot endar í of lítilli atvinnuþátttöku, í því að fjöldi fólks leggst á velferðarkerfið og það sligast á endanum undan byrðinni. Við þekkjum dæmin í Norður-Evrópu, jafnvel í Skandinavíu. Nú standa fyrir dyrum endurbætur á velferðarkerfinu í Svíþjóð. Menn þurfa að fara beint í það verkefni að skerða réttindin við litlar vinsældir. Ég held að við eigum að bera gæfu til þess hér meðan við erum að byggja upp okkar velferðarkerfi að ana ekki út í einhverjar breytingar sem vonlaust er að vinda ofan af síðar.

Ég get bætt því við í þessa umræðu um almannatryggingakerfið í heild sinni að mér finnst þetta í heild sinni afskaplega vont kerfi. Hér er reynt að staga eitthvað í kerfið og það er verið að byggja á þeim grunni sem er til staðar en auðvitað er þetta of ógagnsætt kerfi, illskiljanlegt og flókið. Það er þó viðleitni í frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna til að sameina bótaflokka og auka eitthvað við sveigjanleikann en kerfið í heild sinni er auðvitað allt of flókið og ógagnsætt.

Hvað er í þessum tillögum ríkisstjórnarflokkanna? Það er auðvitað ekki bara hækkun á lífeyri sem tryggir öllum þeim sem ekki njóta annarra tekna en greiðslna frá Tryggingastofnun um 15 þús. kr. á mánuði og svo hækka bæturnar um áramótin um 2,9%, heldur er líka um að ræða einföldun á kerfinu með því að tekjutrygging og tekjutryggingarauki er sameinað í einn bótaflokk. Um er að ræða hækkun á heimilisuppbót, lækkun á skerðingarhlutföllum eins og ég hef áður komið inn á, áhrif á tekjur maka minnka, um er að ræða sérstaka hækkun á lífeyri, það er sett þetta frítekjumark upp á 300 þús. og það er gripið til aðgerða til að hækka vasapeninga. Fyrir utan þessa breytingu sem snertir frítekjumarkið, sem er sérstök aðgerð sem ákveðin hefur verið til að flýta áhrifum frítekjumarksins fram til næstu áramóta, er hér um að ræða hækkun lífeyrisgreiðslna upp á 5,5 milljarða sem verða væntanlega í kringum 5,8 eftir þessa breytingu á næsta ári, tæpa 6 milljarða árið 2008, 6,3 milljarða árið 2009 og um 7 milljarða árið 2010. Þetta eru að mínu áliti verulegar hækkanir. Þær koma til viðbótar öðrum hækkunum sem gripið hefur verið til á þessu kjörtímabili og það er auðvitað ekki sanngjarnt og ekki rétt í neinu samhengi að halda því fram að núverandi ríkisstjórn hafi verið með aðför gegn velferðarkerfinu, það er algjörlega fráleit fullyrðing sem hefur mátt lesa úr fjölmörgum ræðum hér í dag. 21 milljarðs hækkun til almannatrygginga og velferðarmála frá ríkisreikningi 2004 til þessa frumvarps er stór hækkun, í kringum 25%.

Ég ætla ekki í þessari ræðu minni að fara inn í einstaka liði sem hafa komið til hækkunar. Mér finnst ágætt að láta skýringar formanns fjárlaganefndar duga þegar kemur að einstökum breytingartillögum við 2. umr. fjárlaganna. Þetta skýrir sig auðvitað að mestu leyti sjálft en eins og tillögurnar bera með sér ganga þær einmitt í þá átt að auka enn frekar við þessa málaflokka, hvort sem við horfum til menntamálanna og skoðum aukin framlög til framhaldsskólastigsins eða horfum til heilbrigðismála og lítum á milljarð sem fer til Landspítala – háskólasjúkrahúss á þessu ári og áfram inn í rekstrargrunninum á því næsta. Það er gengið enn lengra eftir sömu leið við 2. umr. og með þeim breytingartillögum sem núna liggja fyrir.

Hér hefur töluvert verið rætt um þróun kaupmáttar og býsna fast að orði kveðið, óréttlætið sagt birtast í því að kaupmáttur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar hafi ekki hækkað nægilega mikið. Hvað hefur kaupmáttur launa hækkað mikið frá árinu 1995? Hann hefur hækkað um rúmlega 40%. Hvað hefur kaupmáttur ellilífeyris hækkað frá árinu 1995? Hjá einhleypum rúmlega 50%, hjá sambúðarfólki rétt um 80%. Ég er hér að vísa í töflu sem fylgir frumvarpi til breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Þetta er staðreynd málsins. Það er búið að stórauka kaupmáttinn hjá öllum hópum þjóðfélagsins. Það eru góðu tíðindin. Þessar markvissu aðgerðir sem við njótum nú, aðgerðir sem miðuðu að því að leysa úr læðingi nýja krafta sem áður voru í viðjum ríkisvaldsins eða heftir í höndum þess, hvort sem við horfum til bankanna eða annarrar starfsemi sem áður var rekin af hinu opinbera, hafa svo stórlega aukið hér umsvifin að við njótum nú tekna af auknum umsvifum sem gera okkur kleift að auka framlög til velferðarmála. Ég hef áður í ræðu minni farið yfir það hvernig tekjur frá lögaðilum einum saman hafa stóraukist á nokkrum árum en heildartekjur ríkissjóðs hafa aukist um 150 milljarða frá árinu 2001, úr 245 milljörðum upp í 393 milljarða samkvæmt áætlun á þessu ári. Við munum fara fram úr þeirri áætlun, það liggur þegar fyrir. Við munum fara fram úr því að hafa hækkað heildartekjur ríkissjóðs um 150 milljarða. Þessa hluti má ekki slíta úr samhengi og ég ítreka það sem ég hef áður sagt, hugmyndir minni hluta fjárlaganefndar byggja á stórauknum umsvifum sem stjórnarflokkarnir hafa tryggt, hafa aukið við tekjur ríkissjóðs og staðið undir þeim auknu framlögum til velferðarmálanna sem við erum vitni að í þessu frumvarpi sem er gott frumvarp og sýnir stóraukna lækkun skulda. Við erum að lækka skuldir svo mikið að fá ríki í hinum vestræna heimi skulda minna en Ísland. Það er ótrúlegt (Gripið fram í.)

Að lokum ætla ég að minnast á eina jákvæða aðgerð sem tengist fjárlagagerðinni núna. Hún er afar skynsamleg og felst í því að með nýrri lántöku verður hægt að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans um í kringum 80 milljarða. Það var ekki sjálfgefið að það væri svigrúm til slíkra hluta en aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálunum hefur tryggt að við getum gripið til þessara aðgerða. Það er skynsamlegt og jákvætt og við treystum auðvitað á að vel takist til með að draga úr því þensluástandi sem er núna. Auðvitað þurfum við að ná að nýju jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þetta fjárlagafrumvarp á að tryggja að jafnvægi komist á að nýju á næsta ári og það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir okkur öll. Það eykur ekki líkurnar á að þessu jafnvægi verði náð að koma með 13,4 milljarða kr. hugmyndir um útgjaldaaukningu eins og minni hluti fjárlaganefndar hefur gert hér.