133. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[00:30]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski erfitt að eiga orðastað við suma framsóknarmenn. (Gripið fram í: Svaraðu þá spurningunum.) Þeir virðast ekki skilja hlutina þegar maður talar venjulega íslensku sem ég tel mig gera. Formaðurinn á t.d. erfitt með að skilja spurningar þegar maður ber þær hér upp. Það er kannski þetta háa þekkingarstig sem Framsóknarflokkurinn er á. Annaðhvort þarf ég eitthvað að reyna að feta mig upp á þetta stig eða þeir að færa sig neðar. (Gripið fram í: … svara spurningunum.) Ég styð þessa tillögu, auðvitað geri ég það og ég horfi á þessi verk. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þingmaður slaki á og gefi mér færi á að svara andsvari hans. Ég styð þetta vegna þess að þessir hópar hafa setið eftir. Mér finnst eðlilegt að við þurfum að fara yfir þessa hluti ef við ætlum að rétta hlut þeirra. Svo er ég ekkert viss um að þessar tillögur sem við höfum reiknað út að kosti rúma 7 milljarða, en ekki 9 eins og hv. þingmaður virðist telja, verði það mikill kostnaður (BJJ: … meiri hluta …) og við teljum að með því að rétta hlut þessa fólks skili sér fjármunir aftur inn í ríkiskassann. Ég er sannfærður um að það er hægt að ná miklu meiri og betri árangri við stjórnun fjármála íslenska ríkisins. Því miður skilja framsóknarmenn ekki, eða vilja ekki skilja, þegar við bendum þeim m.a. á lyfjakostnað sem er 50% hærri en hann þarf að vera eða það að reka hér dvalar- og öldrunarheimili fyrir 15 þús. millj. árlega og hafa ekki neina samninga um að þessir fjármunir skili sér til réttra verka. (Forseti hringir.) Við höfum fulla trú á okkar verkum. (Gripið fram í: Hvað …?)