133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:04]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórnin gerði ekki samkomulag við eldri borgara heldur var gefin út yfirlýsing vegna þess að ríkisstjórnin var ekki tilbúin að ganga lengra en raun ber vitni í kjaramálum eldri borgara. Ég segi já við 75 þús. kr. frítekjumarki strax um áramótin fyrir ellilífeyrisþega þannig að þeir geti aukið tekjur sínar um 75 þús. kr. á mánuði án þess að það skerði bæturnar.

Ríkisstjórnin lagði til 17 þús. kr. eftir tvö ár og 25 þús. kr. eftir þrjú ár en bakkaði þó aðeins í 25 þús. kr. nýverið. Ef þetta verður fellt sýnir það innantóm orð frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í prófkjörunum og sýnir viljaleysi ríkisstjórnarinnar í að draga úr þeirri fátæktargildru og vinnuletjandi umhverfi sem kerfið felur í sér. Það er löngu tímabært að endurskoða lífeyriskafla almannatrygginganna. Ég segi já við þessari tillögu.