133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við þessa atkvæðagreiðslu hefur kristallast sá grundvallarmunur sem er á stefnu ríkisstjórnarinnar annars vegar og stjórnarandstöðunnar hins vegar. Stjórnarandstaðan hefur við þessa atkvæðagreiðslu sameinast um tillögur til að bæta stöðu þess fólks í íslensku samfélagi sem býr við erfiðust kjör. Það á við um hópa aldraðra og það á við um öryrkja. Við vildum stíga afdráttarlaust skref í framfaraátt en ríkisstjórnin hefur fellt tillögur okkar.

Þetta eru síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili og vonandi síðustu fjárlög Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Kjósendur í komandi alþingiskosningum hljóta að minnast þessarar atkvæðagreiðslu, annars vegar afstöðu ríkisstjórnarinnar sem lagðist gegn kjarabótum til ellilífeyrisþega og öryrkja og hins vegar stjórnarandstöðu sem sýnt hefur þann vilja sinn í verki að vilja jafna kjörin í landinu með því að bæta kjör lágtekjufólks, bæta kjör aldraðra og öryrkja. Um þetta verður kosið í vor. (Forseti hringir.) Það má til sanns vegar færa að með þessari atkvæðagreiðslu hafi hafist kosningabarátta fyrir komandi alþingiskosningar.