133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því frumvarpi sem hér er mælt fyrir af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra. Það eru þó tvær spurningar sem mig langar að varpa til hans.

Í fyrsta lagi kemur það fram í máli hæstv. ráðherra að einn tilgangurinn með þessari breytingu sem verið er að gera á sjóðnum er að færa hann sem næst því umhverfi sem ríkir á fjármálamarkaði. Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það samrýmist því markmiði að þessi sjóður njóti fullkomins skattfrelsis áfram.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hann hvort frumvarpið sé þannig úr garði gert að það skapi í reynd möguleika á því að eitt sveitarfélag eða hugsanlega eitt fyrirtæki í eigu sveitarfélags geti eignast allt hlutafé í þessum sjóði.