133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

loftferðir.

389. mál
[15:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til breytinga á lögum um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006, þar sem kveðið er á um breytta skipan gjaldtöku stofnunarinnar. Ástæða var til að leggja samhliða fram frumvarp til breytinga á lögum um loftferðir og tryggja frekari lagastoð fyrir innleiðingu EES-gerða sem teknar hafa verið inn í EES-samninginn en hafa ekki verið innleiddar í íslenskan rétt sem og að gera aðrar tímabærar leiðréttingar á ákvæðum laganna til samræmis við það sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar á þessu sviði.

Meðal breytinga eru annars vegar reglur sem heimila Flugmálastjórn að banna flug loftfara frá ákveðnum flugrekstraraðilum eða frá einstökum ríkjum sem sett hafa verið á svonefndan svartlista Evrópusambandsins. Auk þess eru reglur um flutning hreyfihamlaðra og þjónustu við þá á flugvöllum og reglur um upplýsingar fyrir farþega um hver sé raunverulegur flytjandi.

Hins vegar lúta breytingar frumvarpsins að því að styrkja lagastoð vegna evrópska flugsvæðisins að setja skilyrði fyrir umskráningu loftfara, að viðkomandi hafi staðið í skilum á greiðslum gjalda til Flugmálastjórnar, að heimila setningu skipulagsreglna innan flugvalla og útvíkkun á hugtakinu flugumferðarstjórn í flugleiðsöguþjónustu og landamærastöð í stað tollhafnar.

Vikið skal að einstökum atriðum frumvarpsins.

Í 1. gr. er kveðið á um heimild Flugmálastjórnar Íslands til að banna flug loftfara sem skrásett eru eða starfrækt frá tilteknum ríkjum og eða flugrekendum í íslenskri lofthelgi á grundvelli flugöryggis. Stofnuninni er gert að miðla upplýsingum um slíkt bann til almennings, alþjóðlegra stofnana og ríkja. Nánar skal kveðið á um setningu slíks banns, skilyrða, framkvæmd, afléttingu þess og upplýsingamiðlun í reglugerð. Ástæða þessa eru nýlegar reglugerðir Evrópusambandsins sem innleiddar verða í EES-samninginn á næstunni.

Allt frá 1996 hafa samtök flugmálastjórna í Evrópu, ECAC og Flugöryggissamtök Evrópu, JAA, haft forgöngu um að aðildarríki þess geri úttektir á erlendum loftförum og flugrekendum sem viðkomu hafa í ríkjum þess í því skyni að auka flugöryggi. Með slíkum úttektum er leitað staðfestingar á því að loftför og áhafnir sem lenda í aðildarríkjum uppfylli viðauka við Chicago-samninginn sem hefur að geyma lágmarksreglur og viðmið um flugöryggi.

Evrópusambandið gaf árið 2004 út tilskipun um framkvæmd og skýrslugjöf og árið eftir nýja tilskipun um setningu og afturköllun slíks banns, upplýsingamiðlun og um varnir flugrekenda sem fyrir slíku banni verður. Gert er ráð fyrir að innleiða sambærilegar reglur hér, þ.e. að Flugmálastjórn geti tekið ákvörðun um bann en samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998 hefur Flugmálastjórn ekki slíka heimild í dag. Þær heimildir sem lög um loftferðir hafa að geyma ná einungis til þess að aftra för loftfars sem ekki telst lofthæft frá íslensku yfirráðasvæði, sbr. 135. gr. núgildandi laga. Þá er sérstök heimild í 4. gr. laganna þar sem samgönguráðherra er heimilt þegar brýna nauðsyn ber til, svo sem vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu, að takmarka eða banna loftferðir almennt eða um hluta af íslensku yfirráðasvæði. Heimild þessi er annars eðlis og beinist að flugsamgöngum almennt, en ekki að því að banna einstökum flugrekendum eða loftförum för um íslenska lofthelgi.

2. gr. frumvarpsins kveður á um breytingar á 2. mgr. 10. gr. laganna er fjallar um heimild til að skrá loftfar hér á landi sem íslenskum flugrekanda er heimilt að nota í rekstri sínum ef það er í eigu einstaklinga með ríkisfang og heimilisfesti í tilteknum ríkjum sem Ísland hefur samið við vegna þessa. Í núverandi ákvæði er vísað til tveggja samninga sem Ísland er aðili að. Til að komast hjá frekari breytingum á ákvæðinu er mælt fyrir um almennara orðalag svo ekki þurfi að koma til langrar upptalningar á þeim samningum sem Ísland hefur gerst aðili að.

Einnig er kveðið á um breytingar á 3. mgr. 10. gr. Með breytingunni gefst flugrekendum frekara svigrúm til þess að skrá loftfar hér á landi og að leita megi eftir skráningu loftfars hér á landi þótt eignarhald þess kunni að vera í höndum aðila utan ríkja sem Ísland hefur samið við.

Meðal nýmæla frumvarpsins eru ákvæði 4. gr. er varða rétt fatlaðra og hreyfihamlaðra en nauðsynlegt að hafa skýra lagastoð fyrir nýrri reglugerð Evrópusambandsins sem býður innleiðingar í íslenskan rétt. Það nýmæli er lögfest að komi til þess að synja þurfi fötluðum eða hreyfihömluðum farþega um flutning vegna þess að flugöryggiskröfur mæla gegn því eða ef stærð loftfarsins eða dyr þess rúma ekki farþega skuli flugrekandi, umboðsmaður hans eða ferðaskrifstofa gera viðhlítandi ráðstafanir til að stinga upp á öðrum viðunandi möguleika á flutningi. Samkvæmt framangreindri reglugerð Evrópusambandsins á farþegi rétt á að fá endurgreiddan farmiða eða að breyta flugleið á áfangastað komi til synjunar um flutning.

Þá er mælt fyrir skyldu rekstraraðila flugvallar til að veita fötluðum og hreyfihömluðum aðstoð á tilgreindum stöðum til að komast um borð í loftfar, í tengiflug og fleira. Gert er ráð fyrir að þessi aðstoð rekstraraðila flugvallar sé fjármögnuð með gjaldi sem lagt sé á notendur flugvallar í samræmi við hlut hvers notanda af farþegum sem um flugvöllinn fara en í dag ber hver og einn flugrekandi ábyrgð á þjónustu við fatlaða viðskiptavini sína. Nú eru í gildi reglur um hámarksfjölda fatlaðra eða hreyfihamlaðra um borð í loftförum og verður hún endurskoðuð í ljósi breyttra reglna.

Þá er í 5. gr. kveðið á um heimild til setningar skipulagsreglna innan flugvalla en núverandi heimild nær aðeins til setningar slíkra reglna er varða ýmis mannvirki utan flugvalla. En nauðsynlegt þykir að hægt sé að kveða á um skipulag og starfsheimildir þeirra sem þar eru. Í 6.–8. gr. eru ýmsar lagfæringar sem skýra sig sjálfar.

Í 9. gr. frumvarpsins er nýmæli sem kveður á um að við bókun farseðils skuli samningsbundinn flytjandi upplýsa farþega um nafn hins eiginlega flytjanda. Verði breytingar á eftir að bókun hefur farið fram skal samningsbundinn flytjandi upplýsa farþega um það svo fljótt sem kostur er. Það færist sífellt meira í vöxt að annar flytjandi annist og starfræki loftflutning en sá sem samdi við farþega upphaflega um flutninginn. Í sumum tilvikum semur flytjandi við flugrekanda um flutning en í öðrum tilvikum er um að ræða tilfærslu á milli flugrekenda, svo sem vegna bilunar eða annarra ófyrirséðra atvika. Er hér sú skylda lögð á samningsbundinn flytjanda, þ.e. þann aðila er semur við farþega um flutning, að hann upplýsi við bókun um nafn hins eiginlega flytjanda. Sé óljóst þegar bókun fer fram hver eiginlegur flytjandi er ber samningsbundnum flytjanda að tilkynna farþega um eiginlegan flytjanda um leið og slíkar upplýsingar fást staðfestar. Mikilvægt er að flugrekandi eða ferðaskrifstofa, eftir atvikum, upplýsi samningsbundinn flytjanda um hver hinn eiginlegi flytjandi er verði breytingar á þeirri tilhögun sem farþega var áður tilkynnt um. Fái söluaðili ekki upplýsingar um eiginlegan flytjanda getur hann ekki framfylgt ákvæðinu og er því ráðgert að hann sæti ekki ábyrgð vegna þessa.

Að lokum vek ég athygli á nýmæli í síðustu efnisgrein frumvarpsins, um heimild til handa ríkisstjórninni til að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæma viðurkenningu réttinda, skírteina, heimilda, starfsleyfa og vottunar á sviði loftflutninga. Þessi breyting tengist aðild Íslendinga að Flugöryggisstofnun Evrópu árið 2004. Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 1592/2002, um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu er gert ráð fyrir tiltekinni samningagerð um gagnkvæma viðurkenningu af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við þriðju ríki. Nauðsynlegt er að Ísland geri sambærilega samninga við þriðju ríki samhliða Evrópusambandinu til að tryggja hnökralausan rekstur íslenskra flugrekenda og sama rekstrarumhverfi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Er hér miðað við að samgönguráðherra fari með samningsgerð.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir helstu ákvæði og nýmæli frumvarpsins um breytingar á lögum um loftferðir. Breytingunum er ætlað að styrkja lagaumhverfi fyrir innleiðinga nýrra EES-gerða og um leið eru lagðar til nokkrar breytingar á skyldum flugrekenda gagnvart fötluðum, um upplýsingaskyldu þeirra og um heimild fyrir ríkisstjórnina til að semja um gagnkvæma viðurkenningu ýmissa réttinda sem tengjast flugrekstri. Breytingarnar eru til þess fallnar að styrkja stjórn og eftirlit með flugrekstri og styrkja íslenska flugrekendur í þróun sinni, sókn og útrás á erlendum vettvangi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til samgöngunefndar og vænti góðs samstarfs við þingmenn enda eru þingmenn einhverjir allra mestu ferðalangar sem ég þekki. Ég vænti því að hv. þingmenn hafi hlustað af athygli á það merkilega umbótafrumvarp sem hér er flutt.