133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:31]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég muni það rétt að ég sé búinn að sitja í i fjárlaganefnd ásamt hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni í átta ár. Hann hlýtur að vita og muna það mætavel að við höfum allan þann tíma verið einmitt að kljást ekki hvað síst um kostnaðinn í heilbrigðismálum, um það vandamál að reyna að halda utan um rekstrarkostnað heilbrigðisstofnana. Það hefur víða tekist ágætlega. Við eigum margar stofnanir sem standa sig mjög vel í því. En það eru margir þættir sem við höfum ekki ráðið við. Við höfum ekki ráðið við útþensluna og við höfum ekki ráðið við kröfurnar um aukna þjónustu. Við höfum heldur ekki ráðið við marga þætti í kostnaðarþróuninni.

Ég vil minna á það sem dvalarheimilin og öldrunarheimilin standa frammi fyrir í ár — og við vorum einmitt að reyna að laga og erum að laga með tillöguflutningi okkar núna um að setja verulegt fé, nokkur hundruð millj. kr. inn í þær stofnanir — að þær hafa átt í miklum erfiðleikum með launaþróunina. Og man nú enginn þegar borgarstjórinn í Reykjavík hækkaði í desember síðastliðnum launin hjá hinum lægst launuðu, eins og hún sagði sjálf frá, sem reyndist ekki vera hjá hinum lægst launuðu því menn gátu lesið það strax á heimasíðu Eflingar að samningarnir áttu við alla alveg upp í topp. Síðan gerðu sveitarfélögin fleiri samninga sem hafa verið þeim mjög erfiðir og kostnaðarauki mikill vegna þess að þeir eru hærri en samningar ríkisins. Þetta er eitt af því sem stjórnendur þessara stofnana hafa ekkert ráðið við, staðið alveg ráðþrota, og ekki þeim að kenna eða hægt að ásaka þá á nokkurn hátt fyrir það að þeir hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart fjárlögum. Við erum einmitt að leysa þau frá þeim vanda vegna þess að við höfum skilning á því í mörgum tilfellum að þetta er ekki þeirra sök.

Í öðrum tilfellum er það svo, virðulegi forseti, og við kunnum hreinlega ekki svörin en við þurfum að halda áfram á næstu árum að leita þeirra svo okkur takist betur til en hingað til.