133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

eldi og heilbrigði sláturdýra o.fl.

377. mál
[21:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu mun það verða gert en ég vil vekja athygli strax á þessu og einnig því: Hver á að bera kostnað ef verið er að verja sig gegn einhverjum faraldri? Tökum dæmi. Það er stöðugt verið að auka og rýmka heimildir á innflutningi á kjöti og sláturafurðum frá fleiri og fleiri svæðum, því miður. Við vitum að það getur borist hættuleg veiki eins og kúariða og annað því um líkt, Kreutzfeld-Jacobs sjúkdómurinn o.s.frv. Væntanlega ná þessi lög, rannsóknir eða þetta eftirlit ekki til þeirra, eða er það? Það getur þurft að gera býsna dýrar rannsóknir og taka mörg sýni til að gera það.

Í lokin vil ég inna hæstv. landbúnaðarráðherra eftir hvalkjötinu. Verið er að tala hérna um kjöt af sláturdýrum, en hvalkjötið? Maður sér að verið er að gera að hval í Hvalfirði og þar eru spígsporandi menn í alls konar fötum, jafnvel með hunda sér við hlið, og þykjast vera að gera að hval. Hvalur er kjöt og kjötvara og tilheyrir að sjálfsögðu því. Hvernig er með eftirlitið á hvalskurði? Ætti hann ekki líka að falla undir þessi lög og þessar reglur? (Forseti hringir.) Þetta tekur jú til kjöts af sláturdýrum og það er verið að slátra hvalnum til að skera hann niður með þessum hætti, herra forseti.