133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Ekki dreg ég það í efa að hann ber hag landsmanna mjög fyrir brjósti. Hann hefur eins og ég barist fyrir því að ráðist yrði í aðgerðir til að lækka matarverð til heimilanna í landinu. Við höfum stundum ekki alveg horfst í augu varðandi lækkun á matarskattinum svokallaða. Mér heyrist á hv. þingmanni, þó hann sé eigi að síður kominn á sömu skoðun og Samfylkingin hefur verið og loksins ríkisstjórnin, að það sé guðsþakkarvert og tímabært að lækka matarskattinn. Þetta höfum við sett fram í formi þingmála árum saman.

Hins vegar hefur hv. þingmaður verið mér öndverðrar skoðunar að því er varðar aðild að Evrópusambandinu. Eitt af því sem ég og fleiri höfum sagt að fælist sem ávinningur í aðild að Evrópusambandinu er lækkun matarverðs. Hv. þingmaður hefur, að ég hygg, haldið því fram, eins og margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að hægt væri að ná fram svipaðri lækkun á matarverði án þess að ganga í Evrópusambandið með sértækum aðgerðum. Eitt af því er að sjálfsögðu lækkun á matarskattinum. En það sem hefur langmest áhrif á hátt matarverð hér á landi er tollverndin. Þar hefur mér fundist hv. þingmaður og félagar hans í VG standa mjög fast í ístaðinu, svo ég sem er hófsemdarmaður í þessum efnum hef mjög fundið að því. Mér hefur þótt nóg um.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Er Vinstri hreyfingin – grænt framboð undir engum kringumstæðum reiðubúin til að fallast á að slaka á varðandi innflutningstolla á landbúnaðarafurðum?