133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:25]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segist vera að ná tökum á stöðugleikanum. Ég held að það væri miklu nær fyrir hv. þingmann að reyna að ná tökum á óstöðugleikanum. Við erum ekki með neitt fast í hendi þó að spár greiningardeildar bankanna séu með þeim hætti sem þær eru núna. Auðvitað er það vilji okkar allra að hér ríki stöðugleiki en þá verður líka að stjórna efnahagsmálum á þann hátt að honum sé ekki stöðugt stefnt í voða. Stóriðjuvæntingar, sem áframhaldandi vofa yfir, ógna stöðugleikanum og þær stóriðjuvæntingar eru að hluta til vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum hingað til og sömuleiðis er hinn gríðarlegi viðskiptahalli sem við er að glíma að stórum hluta þessari stefnu ríkisstjórnarinnar að kenna.

Mér þykir ánægjulegt og gott að fá að heyra það frá hv. þingmanni að ekki sé verið að skerða á nokkurn hátt kjör námsmanna þó að lækkun til Lánasjóðs íslenskra námsmanna sé upp á 139 millj. Ég tek það gott og gilt og vona að það verði staðfest af samtökum námsmanna að þau séu sammála þeirri yfirlýsingu.

Hvað varðar samninga við Háskóla Íslands, þá held ég að það væri eftirsóknarvert við þessa umræðu að fá að vita frá hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, hvernig þessar 300 millj. eru hugsaðar, hvort einhverjar forsendur séu að baki þeim eða hvort þær eru bara eitthvert friðþægingarslump sem fjárlaganefnd hefur ákveðið að setja til Háskóla Íslands til að lækka þær raddir sem hafa auðvitað verið háværar, að Háskóla Íslands sé mismunað í hinni miklu menntasókn þar sem þessi ríkisstjórn hefur dregið taum einkaskólanna umfram þjóðskólann Háskóla Íslands. Það er mikilvægt að við fáum það fram við þessa umræðu, enda höfum við þingmenn allra stjórnmálaflokka nýverið rætt við háskólamenn, á fullveldisdaginn 1. desember, um vilja okkar og hug til Háskóla Íslands.