133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:08]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þegar dregur að því að umræða um frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár, árið 2007, er á lokaskrefum, ef svo má að orði komast, vil ég aðeins leggja orð í belg, sérstaklega líka vegna þess að ég átti þess ekki kost að taka þátt í 2. umr.

Það hefur verið um margt athyglisvert að hlusta á þær umræður sem átt hafa sér stað. Hápunktur dagsins var að hlusta á ræðu hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar, 7. þm. Reykv. n., í dag um fjárlög þar sem hann fór yfir fjárlög íslenska ríkisins af sinni alkunnu snilld. Umræðan var töluvert lituð ummælum síðustu helgar og áfram. Ég hugsaði með mér að ef ég ætti eina ósk, núna rétt fyrir jólin, mundi ég óska þess að allir þingmenn Framsóknarflokksins á næsta kjörtímabili, sem ég held að verði ekki nema 4–5 ef guð lofar, yrðu nákvæmlega eins og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson. (BJJ: Það er óraunhæft.) Ég veit að óraunhæft er að þeir verði 4–5, það er rétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, ég held að þeir verði færri. Þar sem ég nefndi tíðindi helgarinnar, sjálfseyðingarhvöt og allt það þessi hv. þingmaður notaði þegar hann fór yfir fjárlög íslenska ríkisins, er dálítið sérstakt að hv. þingmaður kemur úr kjördæmi í Reykjavík, Reykv. n., sem mælist með 2% fylgi. (BJJ: 3%.) Það var akkúrat það sem ég vissi reyndar að Framsóknarflokkurinn í Reykv. n. var með 3% fylgi og 2% í Reykv. s. Mér fannst bara svo gaman að heyra hv. þm. Birki Jón Jónsson, fulltrúa Framsóknarflokksins, sem er hér í salnum kalla fram að það væru 3%. Það var náttúrlega alveg (Gripið fram í.) dásamlegt að heyra þá tölu, (Gripið fram í.) að Framsóknarflokkurinn í Reykv. n. skuli mælast með 3% fylgi þaðan sem þessi hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson kemur, að vísu eins og komið hefur fram eftir að nokkuð margir hafa hrökklast frá borði. Ber þá fyrstan að nefna fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem hrökklaðist úr stólnum eftir rúmt ár, úr stól sem hann passaði aldrei í og náði aldrei tökum á. Það er alltaf ljótt, alveg sama hver maðurinn er, þegar menn eru í of stórum fötum. Það fer þeim illa. Það var einmitt þannig sem það gerðist. Svo gerðist meira, fleiri hrökkluðust frá borði. Erfðaprinsinn sem átti að taka við Framsóknarflokknum hrökklaðist líka frá. Og inn kom þessi prýðilegi dásamlegi þingmaður, Guðjón Ólafur Jónsson, sem fór beint inn í 3–4 nefndir þingsins eins og aðrir framsóknarmenn. Þeir eru sem betur fer svo fáliðaðir að þeir þurfa að skipta þessu vel niður á sig. Hann fór í fjárlaganefnd og hin ánægjulegu tíðindi þessa dags við 3. umr. var fjárlagaræða hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar.

Ég ítreka það sem ég sagði, ég vona að ef framsóknarmenn á annað borð verða kosnir við kosningarnar 12. maí 2007 verði allir eins og þessi hv. þingmaður.

Ég sé að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er í salnum. Ég hlustaði líka með athygli á ræðu hans, þá miklu bjartsýni, óskhyggju og allt það sem kom fram í ræðu hans um árangur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, en þá kom upp í hugann — best að segja það strax vegna þess að hér var samflokksmaður minn, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, að fara yfir málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss — það var að vísu ekki við þessa umræðu sem hv. þingmaður gat þess, heldur við 2. umr. og var eiginlega það sem stóð eftir í huga mínum eftir ræðu hv. þingmanns við 2. umr. fjárlaga — ekki man ég hvort það var í ræðu eða andsvari — en það var þegar hv. þingmaður talaði um að hann hefði fengið fréttir af því að skjólstæðingar einhverrar tryggingastofnunar hefðu þurft að bíða eftir að fá símtal við þá ágætu stofnun í 15 mínútur. Ég hugsaði með mér að ef þetta væri eini vandinn í trygginga- eða heilbrigðiskerfinu mætti tvöfalda þann biðtíma töluvert eftir símtali við Tryggingastofnun. Mikið óskaplega var þetta þunnur þrettándi sem kom þar fram, að tala um þetta sem vandamál sem þyrfti að lagfæra svolítið og ég hygg að hv. þingmaður hafi þá átt við að veita þyrfti meira fé til Tryggingastofnunar þannig að þar mætti fjölga starfsfólki við að svara í símann.

Það er sannarlega rétt að margt starfsfólk þarf hjá Tryggingastofnun til að stunda þá útreikninga, endurútreikninga og taka við skilaboðum, símtölum og samtölum bæði frá eldra fólki og öryrkjum varðandi þær tekjuskerðingar sem fólk verður fyrir, allt að því óskiljanlegar sumum hverjum, og er núverandi hæstv. ríkisstjórn ekki til sóma eins og það hefur verið. Mörg dæmi hefur maður fundið og fengið um hvers konar tekjur skerða bætur eldri borgara, allt frá því að viðkomandi selur kannski húsbréf sem viðkomandi fékk við sölu á sinni dýrmætustu eign, þ.e. húsnæðinu, og hefur svo kannski farið á elliheimili. Ég þekki dæmi þess að einstaklingur hafi fengið allt að tveggja ára skerðingu í framhaldi af því að hafa selt nokkur húsbréf. Ég þekki líka dæmi þess að fólk hefur þurft að ganga í sjóði sína til að fá sér pening í atvinnuleysi eða til að ná saman endum og þá hefur skerðing komið. Svona má lengi telja.

Nýjasta dæmið sem ég heyrði um þessa tekjuskerðingu sem reiknuð er út hjá Tryggingastofnun, stofnun sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, gat um í ræðu sinni við 2. umr. að hann hefði heyrt að fólk þyrfti að bíða í 15 mínútur eftir að fá samband við þjónustuaðila þar, er um hjón úti á landi sem leigt hafa frá sér hluta af húsinu og fengið fyrir það nokkrar leigutekjur sem eru notaðar til að borga rafmagn, hitaveitu, fasteignagjöld og viðhald. Engu að síður eru brúttóleigutekjurnar notaðar til að skerða tekjur viðkomandi einstaklinga.

Ég tek eftir því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, er farinn úr salnum. Mér þykir það miður vegna þess að ég ætlaði að taka fyrir það sem ég held að hefði verið betra fyrir hann að tala um sem bið eftir kerfinu. Það er dæmi sem við þekkjum vel, þ.e. að vegna fjárskorts í heilbrigðiskerfinu, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og e.t.v. fleirum, kemst það fólk sem þarf að fara í liðskiptaaðgerð ekki að. Heyrst hafa sögur af því að frá og með enduðum ágúst á einum spítalanum og eitthvað seinna á hinum, þ.e. á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, hafi kvótinn fyrir slíkar aðgerðir einfaldlega verið búinn. Það fólk sem er svo óheppið að bíða þess að komast í aðgerð kemst ekki að fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Fjárveiting til þessara þátta er búin og má ekki gera meira.

Virðulegi forseti. Ég set þetta í samhengi, eins og ég hef áður sagt, við ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, formanns fjárlaganefndar. Hann ræddi um, ég ætla ekki að segja biðlistann í kerfinu heldur biðina í kerfinu, þ.e. hann vissi af einstaklingi sem bíða þurfti í 15 mínútur eftir að fá samband við þjónustufulltrúa hjá Tryggingastofnun. Ég held að hv. þingmaður hefði átt að kynna sér betur stöðuna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þá setti hann þetta kannski ekki fram á jafnósmekklegan hátt og hann gerði. Hann horfir fram hjá aðalatriðunum, t.d. þeim sem ég talaði um. Hann kemur síðan eins og ég veit ekki hvað og ber sér á brjóst fyrir hönd fjárlaganefndar og ríkisstjórnarmeirihlutans fyrir það eitt að hafa í fjáraukalögum og síðan í breytingartillögum við fjárlög fyrir árið 2007 bætt 1 milljarði kr. til Landspítalans og 100 eða 120 millj. kr. til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hann telur sig þar með hafa himin höndum tekið og það sé dæmi um hina ágætu ríkisstjórn að beinlínis allt sé gert sem beðið er um. Það er hins vegar ekki svo, virðulegi forseti.

Ég á sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd. Þegar stjórnarmeirihlutinn var að semja nefndarálit sitt frá heilbrigðis- og trygginganefnd vorum við í minni hlutanum spurð hvort við ætluðum ekki að vera með á því, eins og oft gerist, með eða án fyrirvara. Ég tilkynnti fyrir hönd minni hlutans að við yrðum ekki á því. Þá var ekkert fjallað um það sem þá var vitað, að Landspítala – háskólasjúkrahús vantaði 1 milljarð kr. í frumvarpi til fjárlaga 2007 til að geta haldið uppi óbreyttum rekstri eða svipuðum og hann er núna, væntanlega með þeim takmörkunum sem innbyggðar eru í spítalanum í dag miðað við fjárframlög.

Það kom mér ákaflega á óvart að stjórnarmeirihlutanum í heilbrigðis- og trygginganefnd var algjörlega ókunnugt um að 1 milljarð kr. vantaði fyrir fjárveitingu 2007. Þessi milljarður kom hins vegar frá hv. fjárlaganefnd. Það var sérkennilegt að verða þess áskynja að stjórnarmeirihlutinn í heilbrigðis- og trygginganefnd hafði ekki hugmynd um það. Hér hefði verið ástæða til að spyrja um aðrar heilbrigðisstofnanir, t.d. Heilbrigðisstofnun Austurlands og hvort þar sé búið að gera allt sem þarf að gera til að hún geti haldið áfram eðlilegri starfsemi. Eins og við þingmenn Norðausturkjördæmis vitum hefur verið hjá okkur beiðni allt þetta ár um að vinna á fjárhagsvanda Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Samtök sveitarfélaga á Austurlandi og fleiri hafa óskað eftir því við þingmenn kjördæmisins að fundað verði með þeim. Hins vegar verður að segjast eins og er, sem er dapurlegt, að hv. 1. þm. Norðaust., Valgerður Sverrisdóttir, hefur ekki enn fundið tíma til að halda þann fund og hefur ekki getað komið honum á enda er hún þeirrar skoðunar að þingmannahópurinn sem slíkur eigi lítið að koma að málum.

Þetta er önnur nefndanna sem ég sit í á hinu háa Alþingi. Ég hef farið yfir hennar aðkomu og ætla að láta það duga vegna þess að ég veit að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur farið vel yfir það sem að henni snýr.

Ég ætla hins vegar að skoða frumvarpið út frá hinni nefndinni sem ég sit í, þ.e. samgöngunefnd. Ég sagði áðan um ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar sem lýsti fyrir hönd stjórnarmeirihlutans óskhyggju og bjartsýni á árangur. Ég held að í október á næsta ári, 2007, komi í ljós að þetta er glanspappír, glanspakki, huggulegur jólapakki, mikill tekjuafgangur og allt það. Þessu er pakkað inn í fallegar umbúðir en innihald pakkans er ekki eins gott og gefið er til kynna.

Það er rétt, virðulegi forseti, og ber að taka undir að það er ánægjulegt að skuldir ríkissjóð hafa lækkað. Það er sannarlega rétt. Annað væri hins vegar óeðlilegt en að af þeim ofboðslegu tekjum sem ríkissjóður dregur til sín hafi ekki eitthvað verið notað til að lækka skuldir vegna þess að ekki hefur verið svo mikið um framkvæmdir á vegum ríkisins. Ég ætla að koma að því á eftir í sambandi við samgöngumálin.

Tekjuflæðið í ríkissjóð hefur verið mikið. Þær tekjur hafa sem betur fer verið notaðar til að grynnka á og lækka skuldir ríkissjóðs. Tekjurnar eru m.a. innflutningstekjur af viðskiptahalla sem er um 20% af vergri landsframleiðslu, sem áætlað er að verði á þessu ári um 220 milljarðar kr. Engan skyldi undra að í ríkissjóð koma miklar tekjur með slíkum viðskiptahalla.

Í ríkissjóð hafa einnig komið tekjur og skattar af skuldasöfnun landans, almennings og fyrirtækja. Þær hafa aukist mjög og eru Íslendingar að verða með skuldugri þjóðum miðað við þær tölur sem menn hafa séð frá OECD. Það er ekki nóg að horfa bara á skuldir ríkissjóðs sem hafa verið lækkaðar, skuldir almennings hafa hækkað, skuldir fyrirtækja hafa hækkað, skuldir sveitarfélaga hafa hækkað og þannig má áfram telja.

Ríkisstjórnin hefur verið mjög iðin við það, frá upphafsári stjórnarsamstarfsins 1995, að auka sífellt skatttekjur sínar af þjóðfélagshópum sem síst ætti að ráðast á, þ.e. gamalmennum og öryrkjum. Það er staðreynd að aldraðir og öryrkjar, með örlitlar lífeyristekjur, borga tvo til tvo og hálfan mánuð af árstekjum sínum í skatta til ríkis og sveitarfélaga. Skatttekjur ríkissjóðs af öldruðum og öryrkjum hafa flætt í ríkiskassann undanfarin ár og m.a. verið notaðar til þess sem ríkisstjórnin gumar sem mest af, þ.e. að lækka skuldir ríkissjóðs. Verði þeim að góðu með þær tekjur en ég hef áður sagt að sú skattheimta er einn mesti smánarblettur á okkar ríka og vel menntaða þjóðfélagi og hvernig komið er fram við aldraða og öryrkja. Þess vegna lýsi ég því með sérstakri ánægju að stjórnarandstaðan kom fram sem heild með þá einu breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga við 2. umr. sem er í takt við þingmál sem öll stjórnarandstaðan flutti í upphafi þings. Hún er mjög lík því sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt undanfarin ár varðandi aldraða og öryrkja.

Tillaga okkar var felld að viðhöfðu nafnakalli af stjórnarmeirihlutanum sem sýnir enn einu sinni svart á hvítu að þrátt fyrir gaspur stjórnarmeirihlutans, þar sem margir hverjir eru nýkomnir úr prófkjöri — þá á ég sérstaklega við sjálfstæðismenn, frambjóðendur þess flokks, hvernig þeir skrifuðu og auglýstu að þeir vildu ganga til verka til að bæta hag aldraðra og öryrkja. Þeir féllu á fyrsta prófi. Þingmennirnir sem hér sitja og voru í prófkjöri þar sem þeir skrifuðu og töluðu um frítekjumark, hærri örorkustyrk og hærri bætur til aldraðra og öryrkja, féllu á fyrsta prófi eins og ríkisstjórnin í heild sinni.

Áður en ég sný mér að öðru en þessum mikilvæga málaflokki ítreka ég að það er skömm þessarar ríkisstjórnar hve miklar tekjur ríkissjóður hefur fengið með sköttum á aldraða og öryrkja. Það er hins vegar ánægjulegt, virðulegi forseti, að leiðrétting þeirra mála hlýtur að verða fyrsta verkefni stjórnarandstöðunnar ef henni tekst, eins og lítur út fyrir í dag, að fella þessa ríkisstjórn. Þá verður fyrsta verkefni hinnar frjálslyndu stjórnar jafnaðarmanna að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Þeir eiga það sannarlega inni.

Stjórnarmeirihlutinn gumar af því að ríkið skuldi orðið lítið. Þá kem ég að hinum opinbera aðilanum, sveitarfélögum í landinu. Í fréttum í kvöld kom fram að hjá Ráðhúsi borgarinnar væri traustur ís á tjörninni og fréttamaðurinn sem stóð á honum sagði að ísinn væri traustur en fjárhagur Reykjavíkurborgar væri ekki eins traustur. Þegar meira að segja stærsta sveitarfélag landsins á ekki tekjur fyrir venjulegum rekstrargjöldum getum við spurt hvernig ástatt sé fyrir öðrum sveitarfélögum sem lifa ekki af hina miklu þenslu í landinu, sem aðallega er á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig er staðan hjá þeim sveitarfélögum? Hvernig er staðan hjá sveitarfélögum með þúsund, tvö þúsund, fimm þúsund eða fimmtán þúsund íbúa?

Ég hef heyrt, virðulegi forseti, að það sé verulegt gat hjá Akureyrarkaupstað, upp á einar 240 millj. Ég gat þess áðan hvernig staðan er hjá Reykjavíkurborg og tekjuafgangurinn er eingöngu vegna þess að Reykjavíkurborg er að selja hlut sinn í Landsvirkjun, þess vegna lítur það vel út. Við skulum svo fara yfir það hvort eitthvað í þessu frumvarpi til fjárlaga verður til þess að bæta stöðu sveitarfélaganna í landinu. Nei, síður en svo. Enn einu sinni er hægt að koma hér upp við afgreiðslu fjárlaga og gagnrýna bæði ríkisstjórnina og síðast en ekki síst stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir linkind og allt að því aumingjaskap í samskiptum sínum við ríkisvaldið. Þar að auki er himinn og haf milli hagsmuna stóru sveitarfélaganna og litlu sveitarfélaganna í landinu, litlu sveitarfélaganna víða á landsbyggðinni sem setja 60–70% af tekjum sínum í menntakerfið og eiga þá ekki nærri nóg fyrir öllu sem þarf að gera. Þannig stækkar sú gjá sem er milli íbúa þessara sveitarfélaga sem eiga að njóta þeirrar þjónustu sem lögbundið er að sveitarfélögin eigi að veita en þessi litlu sveitarfélög geta engan veginn veitt og sífellt stækkar þessi gjá.

Það kom nýlega fram að u.þ.b. 2.500 þegnar þessa lands telja eingöngu fram fjármagnstekjur. Það er nú svo, virðulegi forseti, að af fjármagnsskatti, þessum 10% skatti sem greiddur er af fjármagnstekjum og verðbótum, við skulum hafa þær í huga líka, rennur ekkert til sveitarfélaganna. Ekkert hefur verið gert í því af hálfu ríkisstjórnarinnar eða forustumanna Sambands íslenskra sveitarfélaga að fá þetta lagfært, að breyta þessu sem ég held að hafi komið til á síðustu 3–5 árum í svona auknum mæli. Þetta skekkir mjög rekstur sveitarfélaganna og tekur frá þeim tekjur. Talað er um að taka upp viðræður við ríkisvaldið um þetta en nýkjörin stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með Halldór Halldórsson, bæjarstjóra og sjálfstæðismann á Ísafirði í broddi fylkingar, og Árna Þór Sigurðsson, borgarfulltrúa Vinstri grænna í Reykjavík sem varaformann, er ekki að gera neitt í þessum málum um þessar mundir, að mér skilst. Það er dapurlegt ef sjálfstæðismenn sem stýrt hafa Sambandi íslenskra sveitarfélaga, núverandi borgarstjóri og bæjarstjórinn á Ísafirði sem tekinn er við, eru svo flokkshollir ríkisstjórn sinni og sínum flokki að þeir gleyma að berjast fyrir hagsmunum Sambands íslenskra sveitarfélaga, og sérstaklega á ég þá við litlu sveitarfélögin úti um allt land sem, eins og ég sagði áðan, berjast mjög í bökkum vegna fjárhagserfiðleika. Svo kemur ríkisstjórnin, forsætisráðherra og aðrir, og hundskamma sveitarfélögin fyrir að taka ekki þátt í aðgerðum til að minnka þenslu í landinu. Það er ekki öll vitleysan eins.

Við getum líka farið yfir það, virðulegi forseti, að með breytingu á lögum um einkahlutafélög hefur þeim fjölgað að mig minnir í rúmlega 20 þúsund á umliðnum árum eða frá því að reglur um þau voru rýmkaðar. Það var ágæt aðgerð en hún hefur samt sem áður gert það að verkum að sveitarfélögin fá miklu minni tekjur en áður vegna þess að menn reikna sér lægri laun, áður fyrr greiddu menn skatta sína og útsvör af sínum rekstri en nú er það komið yfir í einkahlutafélagið þar sem bæði er greidd lægri skattprósenta og allt fer til ríkisins en ekkert til sveitarfélagsins.

Virðulegi forseti. Þetta lýsir sér kannski best í því að sveitarfélögin í landinu þyrftu að nota tekjur sínar í rúmlega tvö ár til að eiga á móti skuldum. Nú geta menn vafalaust sagt eins og vant er með sveitarfélögin: Já, en það eru miklar eignir á móti. Það eru vafalaust miklar eignir í holræsakerfi, vatnskerfi og götum og þess háttar en menn verða að hafa í huga að það er enginn til að kaupa þær eignir, skuldirnar verða ekki borgaðar niður nema með skattfé viðkomandi íbúa.

Þetta er einn þátturinn í því að tekjur ríkissjóðs hafa aukist svo mikið sem raun ber vitni, þetta mikla tekjuflæði inn í ríkissjóð sem notað er svo til þess að menn geti barið sér á brjóst og talað um hvað þeir stjórni vel og hvað allt sé gott. Þarna er sem sagt verið að færa, samkvæmt þeim dæmum sem ég hef tekið, ríkissjóði miklar tekjur frá sveitarfélögunum í landinu sem sitja svo eftir, og íbúarnir sem í þeim búa, með skerta þjónustu. Stór gjá er að myndast á milli höfuðborgarsveitarfélaganna og fjölmargra sveitarfélaga úti á landi, ekki þó allra sem betur fer en þó nokkuð margra.

Í gær mælti hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpi um lækkun matarskatts, sem er gott og góðra gjalda vert. Loksins er það svo en þingflokkur Samfylkingarinnar, sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hafði svo miklar áhyggjur af í morgun og ég hef gert að umtalsefni, hefur verið í fararbroddi undanfarin mörg þing við flutning tillögu um lækkun matarskatts. Hann gerði það eitt af sínum fyrstu málum á þessu þingi, flutti útfærðar tillögur um það. Nokkrum dögum seinna kom ríkisstjórnin með sitt frumvarp. Samfylkingunni, okkur jafnaðarmönnum, tókst að lokum að reka ríkisstjórnina til þessa verks og loksins er þetta frumvarp komið fram. Því ber auðvitað að fagna, svo langt sem það nær. Í því frumvarpi var líka grein sem var um breytingu á virðisaukaskatti á áfengi, úr 24,5% niður í 7%, og það var dálítið sérstakt að hæstv. fjármálaráðherra, sem mælti fyrir þessu frumvarpi í gær, boðaði jafnframt og fór þess á leit við efnahags- og viðskiptanefnd að þessi þáttur frumvarpsins yrði ekki afgreiddur, yrði látinn bíða. Hvers vegna fór svo með nýlegt frumvarp sem fjármálaráðuneytið og sérfræðingar ríkisstjórnarinnar hafa vafalaust eytt miklum tíma í að búa til? Hvernig stóð á því að nokkrum dögum seinna þurfti fjármálaráðherra að koma með skottið á milli lappanna og biðja okkur þingmenn um að afgreiða ekki breytinguna á virðisaukaskattinum á áfenginu og hækkun á áfengisgjaldinu, eins og hann ætlaði, að biðja um að þetta yrði látið kyrrt liggja?

Í stuttu andsvari mínu, virðulegi forseti, við hæstv. fjármálaráðherra í gær gat ég ekki annað sagt en að ég héldi að það hefði verið ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að gera þessa breytingu, þetta hefði verið meðvituð ákvörðun, hún hafi ætlað sér að ná í a.m.k. 3 milljarða kr. í auknu skattfé af sölu á áfengi á Íslandi í ríkiskassann. Það var hins vegar ekki reiknað með því að þau samtök sem berjast fyrir þau fyrirtæki sem selja áfengi í landinu, þ.e. vínveitingahús og skemmtistaði, færu svo fljótt af stað og yrðu svo snögg til að reikna út að sú breyting sem þarna var lögð til ætti og mundi að óbreyttu gefa 3 milljörðum meira í ríkiskassann en fjármálaráðherra sagði. Það skiptir engu máli þótt í frumvarpinu hafi staðið að ekki væri ætlunin að auka tekjur ríkissjóðs með þessum breytingum.

Hvers vegna segi ég þetta, virðulegi forseti? Það eru stór orð að ásaka hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn fyrir það sem þarna er gert. Jú, ég skal rökstyðja það með svokölluðu dísilolíugjaldi sem hæstv. núverandi forsætisráðherra, þáverandi fjármálaráðherra landsins, Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom með í þingið og var samþykkt. Þar voru tekjur af þungaskatti teknar og þeim deilt í ímyndaðan fjölda seldra lítra af dísilolíu og út úr því fékkst hið himinháa dísilolíugjald sem er 45 kr. á lítrann í dag, að vísu með sífellt nýjum lögum um að veita 4 kr. afslátt og er nú 41 kr. í dag. Sú aðferð sem notuð var við að reikna út dísilolíugjaldið er mjög í takt við þá aðferð sem notuð er núna til að reikna út tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldinu vegna breytinga á virðisaukaskatti af áfengi. Menn ætluðu sér að ná þar í aukatekjur. Menn töluðu um það hér að kerfisbreytingin, úr þungaskatti yfir í dísilolíugjaldið, ætti ekki að hafa tekjuauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Var það svo, virðulegi forseti? Nei, síður en svo. Það hefur komið í ljós í gögnum, bæði frá fjármálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og öðrum, að það sem ég hef gagnrýnt hér allan tímann að sala, fjölda lítra af dísilolíu, er miklu meiri en gert var ráð fyrir. Þess vegna er ríkissjóður að ná til sín á þessu ári allt að 2 milljörðum kr. meira í tekjur af dísilolíugjaldi en ætlað var. Það má segja sem svo, virðulegi forseti, að sannarlega hefði verið hægt að sleppa t.d. þungaskattinum af tengivögnum vegna þess að tekjurnar eru miklu meiri en ætlað var. Sama aðferð er notuð af hæstv. ríkisstjórn með virðisaukaskattinn af brennivíninu og áfengisgjaldið og með kerfisbreytingunni úr þungaskatti yfir í dísilolíugjaldið. Þessi skatttpíningarríkisstjórn náði sér þarna í aukatekjur sem ekki var sagt frá. Það er verulegt umhugsunarefni, virðulegi forseti, fyrir hv. alþingismenn hvernig hið opinbera, framkvæmdarvaldið, ráðherrar og ráðuneyti, kemur með gögn inn til Alþingis — ég tók hér eitt dæmi um virðisaukaskattinn af áfengi og áfengisgjaldið, ég tók annað dæmi af breytingu úr þungaskatti yfir í dísilolíu, olíuskattinn. Svona má áfram telja hvernig framkvæmdarvaldið kemur inn til okkar alþingismanna með vitlaus gögn, beinlínis röng, viljandi eða óviljandi, og Alþingi, oftast nær stjórnarmeirihlutinn, er látið samþykkja þetta sem hefur svo þessar afleiðingar í för með sér.

Virðulegi forseti. Ég sé að í salnum er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem var formaður iðnaðarnefndar þegar breyting á raforkulögum var keyrð í gegnum Alþingi. Þá kemur upp í huga minn eitt atriði, þótt það sé ekki beint til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð en það er af sama meiði og þessi tvö dæmi sem ég tók, þ.e. um gögn sem koma frá framkvæmdarvaldinu sem gögn með frumvörpum og sem gögn sem kallað er eftir í viðkomandi nefndum. Þá á ég auðvitað við þá miklu breytingu sem varð á raforkukerfinu 1. janúar 2005 með nýjum raforkulögum þar sem okkur í iðnaðarnefnd var sí og æ og eftir spurningar frá okkur, m.a. þeim þingmanni sem hér stendur og þeim hv. þingmanni sem situr úti í sal, þáverandi formanni iðnaðarnefndar, Kristni H. Gunnarssyni, þar sem margoft var kallað eftir því frá iðnaðarráðuneyti og ýmsum stofnunum hvaða afleiðingar þetta hefði í för með sér, hvort þetta væri hækkun eða lækkun. Og hvert var svarið sem við fengum? Þetta átti kannski að vera 1%. Hvert er svo dæmið? Jú, ég gerði það að umtalsefni ekki alls fyrir löngu þar sem ég spurði formann Framsóknarflokksins, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, út í það hvort ríkisstjórnin ætlaði að ganga eitthvað í það að jafna þann mikla kostnað sem leggst á fólk í dreifbýli, þá sem síst skyldi leggja auknar álögur á, bændur, fólk í litlum byggðarlögum, sem hefur verið að fá á sig allt að 60% hækkun á raforku vegna þessara kerfisbreytinga, vegna þess að gögn sem komu frá iðnaðarráðuneytinu til iðnaðarnefndar voru beinlínis röng. Ég er alveg sannfærður um það, virðulegi forseti, að við þingmenn hefðum hugsað okkur tvisvar um og hefðum ekki hleypt því máli í gegn eins og gerðist, ef við hefðum haft þær upplýsingar sem við höfum nú um framkvæmd þeirra laga og það sem augljóst var þar inni.

Þess vegna er það staðreynd, virðulegi forseti, að í því frumvarpi sem við ræðum nú fyrir árið 2007 verða engir auknir fjármunir veittir til niðurgreiðslu húshitunar eða til raforkudreifingar í dreifbýli. Það er jólagjöfin í ár frá hæstv. ríkisstjórn, stjórnarmeirihlutanum, til íbúa í hinum dreifðu byggðum landsins, sem fá á sig allt að 60% hækkun vegna húshitunar, að fá það óbætt áfram beint í hausinn eins og þeir hafa fengið, niðurgreiðslur verða ekki auknar. Þetta eru sannarlega kaldar kveðjur, sérlega kaldar kveðjur til íbúa þessara svæða, frá Framsóknarflokknum. Við skulum heldur ekki gleyma Sjálfstæðisflokknum, þótt hann reyni alltaf að vera fjarverandi við öll svona óþægileg mál er sökin engu að síður mikil hjá sjálfstæðismönnum.

Virðulegi forseti. Eitt af þeim atriðum í frumvarpi til fjárlaga sem við ræðum hér og stjórnarmeirihlutinn hælir sér mjög af er að nú á að veita miklu meira fé til samgöngumála, til vegagerðar í landinu. Ef ég man rétt er talað um hækkun upp á 4 milljarða kr. Þetta á sem sagt að nota í átak í samgöngumálum landsins, í vegagerð. Það hefur líka verið mjög gaman að fylgjast með því hvernig fulltrúar stjórnarmeirihlutans koma hér upp í ræðustól og hæla sér af því sem þarna er sett fram, að nú eigi aldeilis að bretta upp ermar og byggja vegi úti um allt, nú verði tekið til hendinni, 2+2 í þessa átt, 2+1 í aðra átt og jarðgöng hér og jarðgöng þar o.s.frv. Guð láti gott á vita, virðulegi forseti. Vonandi gengur þetta eftir.

En þetta hefur ekki alltaf gengið eftir, því miður. Við höfum áður séð svona frumvarp til fjárlaga. Við höfum áður séð borubratta stjórnarþingmenn tala um að nú fari þetta allt að breytast, það verði settir svo miklir peningar í vegamál og annað slíkt. Hæstv. samgönguráðherra heldur fundi og talar um að stórátak í vegagerð sé hafið. Sá sem hér stendur skal verða síðastur til að andmæla því, það er sennilega mikil þörf á að það verði gert. Ríkisstjórnin hefur stuðning minn til þeirra verka. En hver er svo raunveruleikinn í því sem gert hefur verið? Það er þannig, og ég hef stundum sagt það, að ég vildi óska að kosið væri til Alþingis á hverju einasta ári, a.m.k. með tilliti til þess hvað kemur í frumvarpi til fjárlaga til vegagerðar. Svo skrýtið sem það er voru svipuð áform uppi um stórátak í vegagerð þegar við afgreiddum fjárlög árið 2002, fyrir árið 2003. Haldnir voru fundir í Iðnó af núverandi hæstv. samgönguráðherra og þáverandi formanni samgöngunefndar, sem mig minnir að hafi verið Árni Johnsen, og það voru dregnar upp þvílíkar glærur og Íslandskort og ég veit ekki hvað og hvað. Nú yrði gaman að vera Íslendingur og keyra um þjóðvegi landsins, nú væri allt á réttri leið. Rúmir 16 milljarðar voru áætlaðir í fjárlögum fyrir árið 2003 í það stórátak sem gera átti. Má ég aðeins minna á það til skýringar að alþingiskosningar voru vorið 2003, ef ég man rétt 10. maí, og frambjóðendur stjórnarflokkanna fóru um öll héruð, í alla bæi og öll kauptún og allar sveitir og boðuðu fagnaðarerindið.

Hver var svo raunveruleikinn? Alþingi var varla komið saman eftir kosningar 2003 þegar byrjað var að skera niður og fresta.

Strax í fjárveitingum til samgöngumála árið 2004 var þetta dottið niður í 13 milljarða, árið 2005 niður fyrir 13 milljarða og síðan koll af kolli. Áformin sem voru uppi hafa verið þannig að framkvæmdir í vegamálum hafa verið skornar niður um 2 milljarða kr. á ári, árið 2004, 2005 og núna 2006. 6 milljarða kr. niðurskurður í samgöngumálum eftir kosningar 2003, eftir hin miklu áform sem komu fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 sem eru keimlík því sem skrifað er inn í frumvarpið nú fyrir árið 2007.

Ég vara við því að þessi ágætu áform sem ég styð, ég vildi gjarnan sjá meira, verði skorin niður áður en langt um líður. Það verða vafalaust fundnar einhverjar góðar ástæður fyrir því að skera þau niður, eins og t.d. þensla eða að verktakar bjóði ekki nógu vel eða eitthvað svoleiðis. Einhver ástæða verður fundin til þess. Það er rétt að hafa það í huga, virðulegi forseti, að tekjur ríkissjóðs af bifreiðanotkun og bifreiðainnflutningi árið 2005, sem er það ár sem við höfum til að bera saman eða taka rauntölur, eru hvorki meira né minna en 47 milljarðar kr. Hve miklu skyldi vera varið til vegagerðar og vegaframkvæmda eins og ég hef gert hér að umtalsefni? 13,4 milljörðum árið 2005. 34 milljarðar kr. renna beint í ríkissjóð og eru notaðir þar og svo kemur stjórnarmeirihlutinn og hælir sér af því að tekjuafgangur sé svo mikill hjá ríkissjóði. Auðvitað er hann mikill, m.a. vegna þess sem ég hef talið upp sem er skattar af öldruðum og öryrkjum, svívirðileg framkoma gagnvart sveitarfélögunum í landinu, tekjur af neyslu þjóðfélagsins, neyslusköttum, tekjur af 220 milljarða viðskiptahalla og öðrum innflutningi og svo tekjur af bifreiðanotkun og bifreiðainnflutningi. 34 milljarðar runnu þráðbeint inn í ríkissjóð árið 2005, m.a. notaðir til að greiða niður skuldir eins og við sjáum.

Er þetta eitthvert nýmæli, virðulegi forseti? Nei, það er nefnilega ekki svo. Þetta er búið að vera svona mörg undanfarin ár. Það er búið að vera þannig að frá árinu 1995, þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn tóku saman í ríkisstjórn, hefur verið slegið heimsmet að mati Félags íslenskra bifreiðaeigenda og fleiri aðila, sem hafa látið sig þetta varða og hafa reiknað þetta út, í skatttekjum af bifreiðanotkun og bifreiðainnflutningi. Árið 2004 komu tæpir 40 milljarðar í ríkiskassann en einungis 14,1 milljarður fór til vegagerðar. Á kosningaárinu 2003, eins og áður hefur komið fram, voru heildartekjur ríkissjóðs af bifreiðainnflutningi og bifreiðanotkun rúmir 34 milljarðar kr. og þá var kosningagjöfin og eytt örlítið meira en síðustu 2–3 ár eða 17,3 milljörðum kr. Árið áður var, eins og áður sagði, aðeins 13 milljörðum varið til vegamála og tekjurnar voru þá 31,3 milljarðar kr. Enda sjáum við að framlag til vegamála sem hlutfall af landsframleiðslu var árið 2005 það lægsta í sögu þessarar ríkisstjórnar frá 1995, eða 1,35%, en tekjurnar voru 4,65%. Tekjurnar af ökutækjum sem hlutfall af landsframleiðslu 4,65% en einungis 1,35% varið til vegamála miðað við landsframleiðslu. Lægsta hlutfall frá 1995. Mér segir svo hugur að það þurfi að fara töluvert aftar til að finna lægra hlutfall ef það er þá til. Og hvers vegna segi ég þetta, virðulegi forseti? Jú, ég bendi á það lýðskrum sem felst í þessu frumvarpi þar sem boðaðar eru auknar fjárveitingar til vegamála, sem sannarlega er þörf á um land allt, en ég óttast að þetta sé ekkert annað en kosningaáróður, eingöngu sett hér svo að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna geti riðið um héruð eins og þeir gerðu 2003 og sagt að nú verði allir vegir byggðir upp og allar brýr tvöfaldaðar og jarðgöng hér og jarðgöng þar o.s.frv. Ég er áhugamaður um svona framkvæmdir, ég fagna því að meira fé verði sett til vegamála eins og margoft hefur komið fram í ræðu minni á hinu háa Alþingi, mér finnst að setja mætti meira til þeirra, en ég treysti ekki hæstv. ríkisstjórn til að fylgja eftir þeim áformum sem boðuð eru í þessu frumvarpi. Ég hugsa að þjóðhátíðardagurinn 17. júní 2007 verði ekki liðinn þegar við förum að heyra að ýmsu verði frestað af þessum áformum.

Ég hef gert að umtalsefni tekjuöflun og skatta ríkissjóðs sem hafa stórhækkað, skattar á almenning hafa stórhækkað, alveg sama þótt ríkisstjórnarflokkarnir telji okkur trú um annað, það er þannig að ýmsar breytingar í þessum óbeinu sköttum hafa gert það að verkum að þetta er svona.

Það er sannarlega þörf á stórátaki í vegamálum eins og boðað er í þessu frumvarpi, það þyrfti að vera miklu meira og þyrfti að vera þannig að staðið yrði við það. Menn verða að átta sig á því að í okkar ágæta landi sem er ekki mjög stórt erum við þó með um 13 þús. kílómetra af vegum. Ég er ekki viss um að allir þingmenn geri sér grein fyrir hvernig skipting þeirra er en á fundi sem ég var á ekki alls fyrir löngu kom það fram. Það voru ákaflega athyglisverðar tölur. Þær eru þannig að stofnvegir eru 4.230 kílómetrar og á höfuðborgarsvæðinu eru þeir 99 kílómetrar, tengivegir eru rétt rúmir 4 þús. kílómetrar og á höfuðborgarsvæðinu 18 kílómetrar, safnvegir eru 2.576 kílómetrar, enginn á höfuðborgarsvæðinu, svokallaðir landsvegir eru 2.225 kílómetrar, 14 kílómetrar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sýnir dæmið.

Ég vil minna á svar hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn minni fyrir einu eða tveimur árum, þar sem ég dró m.a. fram þær upplýsingar sem ég hef farið með hér, um heildartekjur ríkissjóðs af bifreiðainnflutningi og bifreiðanotkun á móti því sem varið er í vegakerfið. Hægt er að skoða hvernig þeir vegir skiptast eftir kjördæmum og eftir sveitarfélögum. Það er hryllilegt að skoða ýmsa tengi- og safnvegi í ýmsum byggðarlögum landsins. Þar eru m.a. brýr frá 1910, að mig minnir, sem mjólkurbíllinn sem þarf að keyra um sveitina til að ná í afurðir frá bændum kemst varla yfir nema tómur. Þetta er ástandið. Fjölmargir af þessum vegum hafa ekki það burðarþol sem þarf í dag, ég tala ekki um eftir að strandsiglingar lögðust af. Þess eru dæmi, t.d. við jafnfallegt og gott byggðarlag eins og Vopnafjörð, að menn hafi ekki getað skipað út fiski árið 2006 vegna þess að þjóðvegurinn hefur ekki burði til þess og þarf að loka honum og setja á hann þungatakmarkanir á vorin. Þetta er ástandið í vegakerfinu þótt margt hafi áunnist.

En af 13 þús. km eru eingöngu 4.600 km lagðir bundnu slitlagi, mest auðvitað á hringveginum. Það hefur aukist úr 3.700 km á árinu 1999. Á sama tíma hefur ökutækjum í landinu fjölgað. Talið er að fjölgun ökutækja frá árinu 1999–2005 sé um 30% og umferð hefur að sjálfsögðu aukist. Ég hef t.d. séð tölur um að umferð um Suðurlandsveg og Hellisheiði hafi aukist um 40% frá árinu 1999 og um Vesturlandsveg sunnan Þingvallavegar um 62%. Það er athyglisvert í þeirri umræðu sem fram fer núna um endurbætur á Suðurlandsvegi um Hellisheiði sem er sjálfgefið að þurfi að fara í og þá til langs tíma, að það dugi til fjölmargra næstu ára. Þá held ég að ekki sé hægt að gera annað en fara í svokallaðan 2+2 veg. Þau hörmulegu slys sem orðið hafa á þessum vegi sýna að við getum ekki búið við þá vegi sem byggðir voru fyrir mörgum árum. Til langs tíma voru svokallaðir 1+1 vegir, þ.e. venjulegir þjóðvegir eins og við keyrum á í dag, 6,5 metra breiðir. Nokkrir voru gerðir 7,5 m breiðir en síðustu ár eru þeir 8,5 metrar. Miðað við þessa miklu umferð og þær miklu tekjur sem streyma inn í ríkiskassann verður að leggja meiri áherslu á að bæta þá vegi sem um ræðir. Þar verður að vera vegrið sem skilur að akstursstefnur, hvort sem það er í 2+1 eða 2+2 vegi, sem talið er koma til greina á Suðurlandsvegi, 19 metra breiða rúmlega. Sú framkvæmd yrði þá til næstu 35 eða 40 ára, samanber framkvæmdir á Reykjanesbraut. Menn sjá þvílík bylting þar varð.

Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að áherslurnar í samgöngumálum væru misjafnar eftir kjördæmum og eftir svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu byggjast þær á að umferðin gangi hraðar frá A til B, ef svo má að orði komast. Úti á landi snýst það um hvort fólk komist yfir höfuð milli staða, eins og ég nefndi áðan með veginn niður í Vopnafjörð. Sama gildir um fjölmarga aðra staði. Það er ljóst að gera þarf miklu meira átak í vegagerð á Íslandi, virðulegi forseti. Ég held að fara þyrfti í meiri framkvæmdir til næstu 3–4 ára og gera töluvert meira stórátak en ríkisstjórnin gumar sér af í frumvarpi til fjárlaga. Ég hef þó fyrirvara á því þar sem ég treysti þeim ekki til að fylgja því eftir. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar að leggja töluvert meira fé í vegagerð á Íslandi, annars vegar að gera betra flæði á milli og tryggja að menn komist yfir höfuð á milli. Byggja þarf upp eldgamla niðurgrafna vegi sem víða eru úti á landi, byggja jarðgöng o.s.frv. Það ætti að vera eitt af forgangsverkefnunum í framkvæmdum ríkisins næstu 3–4 ár.

Ég ætla að leyfa mér að segja, virðulegi forseti, að ég held að íslenska þjóðin verði töluvert sátt við að leggja meira fé til vegagerðar á næstu árum, sem skiptist auðvitað milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Það yrði unnið á öllum þessum svæðum, Sundabraut í Reykjavík, tvöföldun á Suðurlandsvegi, þess vegna í einkaframkvæmd, sem ég held að sé mjög álitlegur kostur að prófa, t.d. með Suðurlandsveg enda tókst framkvæmdin við Hvalfjarðargöng mjög vel og hefur verið til góðs.

En það þarf líka að taka til hendinni í landsbyggðarkjördæmunum. Þar ætla ég að fara aðeins yfir þau tvö sem ég þekki best, þ.e. Norðvesturkjördæmi og mitt kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Þar eru ýmis aðkallandi verk sem þarf að ráðast í. Fyrir það fyrsta þarf að ljúka malbikun á hringveginum um Arnarstaðamúla í Norðausturkjördæmi, sem vonandi er að komast á framkvæmdastig eftir þá vitlausu aðgerð ríkisstjórnarinnar að stoppa framkvæmdir í sumar vegna þenslu, eins og það hét, sem hæstv. forsætisráðherra dró til baka tveimur mánuðum seinna og sagði að ástandið væri betra í þjóðfélaginu. Það hefði gengið svo niður þenslan og verðbólgan að nú væri allt í lagi að starta nokkrum vegabútum úti á landi sem kostuðu 1.100 millj. kr. á þessu ári. Það var mjög ánægjulegt að þegar hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að þenslan hefði minnkað og verðbólgan minnkað og í lagi að fara að vinna við veginn niður á Vopnafjörð eða veg milli Þistilfjarðar og Öxarfjarðar, Dettifossveg eða eitthvað af þeim vegabótum sem við höfum talað um.

Virðulegi forseti. Það er sannarlega þannig að á fjölmörgum stöðum, t.d. á Vopnafirði á árinu 2006, að menn búa við allsendis vonlausan veg og framkvæmdum við hann hefur verið frestað fram á næsta ár. Það á að vinna fyrir 300 millj. kr. og eitthvað aðeins meira árið 2008. Þannig mun árið 2008 eða 2009 loksins verða kominn uppbyggður almennilegur vegur til Vopnafjarðar. Það er auðvitað ekki boðlegt.

Sama má segja um nýjan veg í staðinn fyrir Öxarfjarðarheiði, sem er einn sá alfurðulegasti vegur sem enn er í vegakerfi okkar. Hann er niðurgrafinn lækjarvilpum í og ég veit ekki hvað. Hann lokast við fyrstu snjóa. Þar átti að byggja upp nýjan veg, milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar, svokallaða Hófaskarðsleið. Hún var skorin niður í sumar en datt aftur inn síðar. En enn kemur hæstv. forsætisráðherra og flytur frumvarp þar sem hann breytir röðinni á hinum margfrægu og margnotuðu símapeningum og boðar að framkvæmdir sem áttu að hefjast árið 2007 við þann nýja veg verði færðar aftur til ársins 2008.

Ef ég held mig við mitt kjördæmi þá má nefna þar fleiri vegi, t.d. veginn að hinum fallega Dettifossi, Dettifossleið sem lengi hefur verið kallað eftir, að búa til almennilegan veg svo ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, geti séð það fallega landslag. Þar er líka niðurgrafinn vegur með stórum og miklum steinhnullungum og erfiður yfirferðar nema á sérútbúnum bílum.

Vegtengingin við Norðfjörð er sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Göng sem þar voru byggð, að sjálfsögðu einbreið, eru í 630 metra hæð yfir sjávarmáli. Það var vonlaus aðgerð og raunar illskiljanlegt hvernig þetta var gert á sínum tíma, að byggja þau göng í svo mikilli hæð, nema það hafi verið eins og þegar við lögðum 6,5 m vegina með litlu sem engu burðarlagi, vegi sem eru að eyðileggjast núna, að jarðgöngin, Oddsskarðsgöngin hafi verið gerð til að gera eitthvað fyrir sem minnstan pening en þau er ekki til langframa og hafa verið í notkun allt of lengi án þess að ráðist hafi verið í ný göng. Þess vegna hljóta, virðulegi forseti, á næsta ári, ekki seinna en á vordögum 2008, framkvæmdir að hefjast við Norðfjarðargöng. Það er hluti af því sem ég er að tala um, þ.e. aukið fé til vegamála. Svona má lengi áfram telja.

Einkafélag á Norðurlandi, Greið leið ehf. hefur unnið alla undirbúningsvinnu fyrir Vaðlaheiðargöng sem er hið besta mál. Þau komast vonandi á laggirnar með samþykkt samgönguáætlunar, að komið verði til móts við það fyrirtæki til að gera það sem þar þarf að gera og koma því verki í gang sem þarf að haldast í hendur við lengingu flugbrautar á Akureyri. Það er auðvitað bæði hagkvæmt og skynsamlegt að sprengja göngin og nota það sem úr þeim kemur til að lengja flugbrautina. Mér skilst að allt að því helmingur þess sem úr göngunum kæmi mundi nýtast til lengingar flugbrautarinnar. Ég kem kannski betur að flugbrautunum á Akureyri og Egilsstöðum á eftir undir Flugmálastjórnarliðnum í samgönguáætluninni.

Ég hef talið upp nokkrar nauðsynlegar vegaframkvæmdir í mínu kjördæmi. Ég get auðvitað einnig farið yfir í Norðvesturkjördæmi og nefnt framkvæmdir sem mér skilst að einnig hafi verið frestað að verja til svokölluðum símapeningum. Í sama frumvarpi og hæstv. forsætisráðherra flutti fyrir nokkrum dögum til að breyta röð framkvæmda fyrir svokallaða símapeninga sem ríkisstjórnarflokkarnir hældu sér af, peningum sem fengust fyrir sölu Símans og áttu að fara til vegamála. Samkvæmt því skal færa til frá árinu 2007 til ársins 2008 hina þörfu og góðu framkvæmd sem vegurinn um Markötludal er. Ef ég man rétt mun hann stytta vegalengdina frá Ísafirði til Reykjavíkur um allt að 40 km. Ég sé að hv. þm. úr Norðvesturkjördæmi, Kristinn H. Gunnarsson, jánkar þeirri tölu þannig að ég fer með rétt mál.

Ýmsar aðrar framkvæmdir í Norðvesturkjördæmi voru skornar niður í sumar, fóru í hið margfræga frestunarferli eins og þverun Mjóafjarðar, sem líka styttir leiðina og aðrar nauðsynlegar framkvæmdir í þessu kjördæmi. Þetta kjördæmi kallar á auknar fjárveitingar til vegagerða af fjárlögum íslenska ríkisins.

Má ég rétt í lokin, virðulegi forseti, ræða um Óshlíðargöng sem ríkisstjórnin setti milljarð í á síðasta ári og átti að hefja framkvæmdir við. Sem betur fer, segi ég, hafa þau framkvæmdaáform sem lagt var af stað með, þ.e. að gera það með þremur svokölluðum slaufum inn í Óshlíðina af Óshlíðarvegi, ekki orðið að veruleika. Ég vona sannarlega að það verði aldrei gert.

Ég tel, virðulegi forseti, að við verðum að læra af reynslunni. Ég hef bent á og gagnrýnt Oddsskarðsgöng og mjóa vegi, 6,5 metra breiða með litlu burðarþoli, þunnu slitlagi og þá skammsýni að gera sem mest fyrir sem minnst fé. Það kemur í hausinn á okkur núna og æpir á meira fé til viðhalds. Til að taka þá slysahættu út sem Óshlíðin sannarlega er, með miklu grjóthruni, vona ég að niðurstaðan verði að byggð verði almennileg göng annaðhvort frá Ósi í Seljadal yfir í Hnífsdal eða yst í Syðri-Dal í Bolungarvík og yfir í Hnífsdal. Slík framkvæmd kostar eitthvað örlítið meira en slaufurnar þrjár sem lagt var upp með, að byrja á einum göngum og svo næstu og svo þriðju. Ég man ekki hvað þetta voru margir kílómetrar en mér fannst það alltaf arfavitlaus hugmynd og treysti á að aðrar og betri tillögur komi fram um framtíðarvegtengingu til þess ágæta og fallega staðar Bolungarvíkur. Þeir eiga það sannarlega skilið eftir að hafa búið við slæman og hættulegan veg um Óshlíð um langt skeið.

Ég hef reyndar áður sagt að það kann að vera dæmi um skammsýnina sem felst í að henda takmörkuðu fé af fjárlögum til samgönguáætlunar, vegáætlunar eins og hún hét áður fyrr, þegar menn sletta peningum hist og her á þess að vinna vegina almennilega Auðvitað átti aldrei að byggja upp Óshlíðina eins og hún var gerð. Það átti strax að gera jarðgöngin sem ég held að verði ofan á á næstu missirum. Vonandi hefjast framkvæmdir við þau á næsta ári.

Ég ætla þar með að ljúka máli mínu um vegaframkvæmdir á landsbyggðinni í þessum tveimur kjördæmum sem ég þekki hvað best. Reyndar gerði ég Suðurlandsveg einnig að umtalsefni. Það ætti að breyta þeirri framkvæmdaröð sem verið hefur hingað til, þ.e. að byggja aðeins ein göng í einu og aldrei megi vera tvær slíkar framkvæmdir í gangi samtímis. Ég held að það sé verkefni komandi ára að hafa a.m.k. tvenn göng undir. Ég trúi því og treysti að fljótlega verði boðin út göng við Óshlíð og næstu jarðgöng í Norðausturkjördæmi, ný Norðfjarðargöng, að þau verði unnin samhliða og verði lokið við lok næsta kjörtímabils, þ.e. 2009, 2010 eða 2011. Það er sannarlega hægt.

Rætt hefur verið um einkaframkvæmd á Suðurlandsvegi. Ég tek skýrt fram að ég er ákaflega hlynntur að skoða það vandlega. Það er ákaflega spennandi kostur. Ég tel að menn geti líka opnað fyrir einkaframkvæmdir í jarðgöngum. Ég veit til þess að það er áhugi meðal verktaka sem sérhæfa sig í gerð jarðganga á að skoða möguleikann á að vinna jarðgöng á þennan hátt. Að þeir mundu fjármagna allt verkið en það yrði síðan greitt með svokölluðum skuggagjöldum, þ.e. af notkun, eins og talað er um á Suðurlandsvegi.

Virðulegi forseti. Til þess að gæta allrar sanngirni vil ég taka skýrt fram að víða eru aðkallandi verkefni á höfuðborgarsvæðinu sem vinna verður samhliða. Þar nefni ég Sundabraut og Suðurlandsveg á vegum ríkisins eða í einkaframkvæmd, ef það verður hagkvæmari og fýsilegri kostur sem ég tel að geti orðið. Mér þótti a.m.k. fróðlegt að vera á morgunverðarfundi Samtaka verslunar og þjónustu þar sem rætt var um nýjar leiðir í vegamálum. Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, útskýrði m.a. hvað þeir væru að hugsa um að gera og Halldór Benjamín Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Suðurlandsvegar ehf. útskýrði það hvernig þeir sæju málið. Þetta er mjög spennandi kostur að skoða. Ef það er virkilega þannig að einkaaðilar geta fengið lán með aðeins 50 punkta hærri vöxtum en ríkið fengi, með EURIBOR-vöxtum, er það ákaflega athyglisvert dæmi. Halldór Benjamín Þorbergsson sýndi fram á að ef einkaaðilum tekst að lækka kostnað við verkið um 10% með því að taka stóran áfanga undir í einu, alla framkvæmdina en brytja hana ekki niður eins og oft gerist hjá ríkinu, mætti ná 10% lægri stofnkostnaði. Það var útskýrt þannig að tvöföldun Suðurlandsvegar eða 2+2 vegur mundi kosta um 7 milljarða kr. og 10% lækkun, vegna stórs áfanga, færi niður í 6,3 milljarða kr. Það mundi vega upp á móti hærri vöxtum einkaaðilans þannig að það væri nánast í jafnvægi, 7 milljarða kr. framkvæmd ríkisins og 6,3 milljarða kr. framkvæmd einkaaðila. Það er auðvitað þannig að Vegagerðin getur líka fengið góð tilboð og lægri. Miðað við 20 ár kæmi þetta svipað út og örlítill munur á því einkaaðilanum í óhag, ef svo má að orði komast, meira greitt fyrir það á 25 árum og eykst aðeins miðað við 30 ár.

Einnig var skoðað hvernig nágrannaþjóðir okkar hafa gert þetta. Bæði var nefndur Lathi-vegurinn í Finnlandi og að norska Stórþingið setti árið 2003 þrjú vegaverkefni í slíkt ferli við ákvarðanatöku um framtíðaruppbyggingu vega í Noregi. Góð reynsla er af því verki. Þetta þarf að skoða.

Ég tel borðleggjandi að skoða einkaframkvæmd mjög alvarlega gagnvart Suðurlandsvegi. En ég vil halda því til haga, virðulegi forseti, að sú framkvæmd verði heldur ekki, þótt þar væri stórt verkefni í gangi, til þess að draga úr framkvæmdum á landsbyggðinni. Það má aldrei gerast. Þar verða sennilega hefðbundnar framkvæmdir Vegagerðarinnar áfram vegna þess að einkaaðilar hafa ekki áhuga á þeim, nema ef vera kynni jarðgangagerð eins og ég nefndi.

Ég held, virðulegi forseti, að stórátak í vegagerð sé nauðsynlegt á næstu árum. Frumvarpið ber vott um það og ég fagna því þótt meira verði að gera. Ég hef þó efasemdir og þann fyrirvara að ég treysti ekki ríkisstjórninni fram yfir kosningar. En vonandi leiða kosningarnar til þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar fari frá og ný ríkisstjórn taki við. Verkefni komandi ríkisstjórnar yrði að fara í það stórátak sem ég hef hér talað mjög mikið um undir liðnum samgöngumál, enda sá málaflokkur mér hugleikinn þar sem ég sit í hv. samgöngunefnd.

Að lokum ítreka ég að ég held að það verði mikil þjóðarsátt um stórátak í vegagerð. Við ætlum okkur að byggja nýjan Landspítala á höfuðborgarsvæðinu sem við eigum sannarlega inni, Landspítala fyrir Landssíma eins og sagði í þingsályktunartillögu sem ég flutti fyrir töluvert mörgum árum. Það hefur orðið að veruleika og er orðin stefna allra flokka sem betur fer. Þetta væru fínar framkvæmdir að ganga í á næstu þremur til fjórum árum í staðinn fyrir, eins og maður heyrir stundum hjá ráðherrum, iðnaðarráðherra og forsætisráðherra og fyrrverandi iðnaðarráðherra, að hefja strax á næsta ári í stækkun álversins í Straumsvík, byggingu á nýju álveri suður í Helguvík eða jafnvel nýbyggingu álvers suður í Þorlákshöfn, sem farið er að tala um, eða áframhaldandi stækkun á álverinu við Grundartanga.

Virðulegi forseti. Þótt ég sé unnandi uppbyggingar stóriðju og atvinnusköpunar, sem ég er mjög hlynntur og hef talað mikið fyrir, sérstaklega á landsbyggðinni sem á í vök að verjast hvað það varðar. Ég hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar en held að næstu þrjú, fjögur ár, jafnvel fleiri, yrðu góð til að fara í stórátak í samgöngumálum, byggingu Landspítala og annarra framkvæmda úti á landi, að það yrði meginþunginn í framkvæmdum á landinu á næstu árum í staðinn fyrir að ætla strax í stækkun álversins í Straumsvík, sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að mætti þess vegna byrja á á næsta ári. Ég tek skýrt fram að ég hef ekki skipt um skoðun á þessu en ég tel nauðsynlegt að við stöldrum við, lítum um öxl og látum þessi mál aðeins þróast. Stórátak í vegagerð, bygging Landspítala er það sem þjóðin sættir sig við á næstu árum.

Í lokin, virðulegi forseti, langar mig að nefna eitt lítið mál. Ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar Birkir Jón Jónsson er aftur genginn í salinn. Ég sakna þess að ekki skuli komið til móts við íbúa í dreifbýli hvað varðar svimandi háan raforkukostnað. Ég sakna þess líka að í meðförum fjárlaganefndar hafi ekki verið lagfært tiltekið atriði sem heyrir líka undir samgönguráðuneyti, undir Flugmálastjórn.

Á fundi samgöngunefndar um daginn þar sem fulltrúar frá Flugmálastjórn voru viðstaddir var fjallað, að minni beiðni, um stækkun Akureyrarflugvallar. Flugmálastjórnarmennirnir gerðu grein fyrir því hvernig það mál stæði. Hjá þeim kom fram að ef frumvarp til fjárlaga, eins og það liggur fyrir, yrði samþykkt óbreytt þá drægjust framkvæmdir Flugmálastjórnar saman um 100 millj. kr. á næsta ári. Það vantar 100 millj. kr. til þeirra framkvæmda.

Sú framkvæmd sem Flugmálastjórn ætlaði í á Akureyrarflugvelli árið 2007, upp á 68 millj. kr., væntanlega við annað öryggissvæðið, annan endann, kæmist þar með í uppnám og mundi frestast. Þess vegna skil ég ekki af hverju stjórnarmeirihlutinn hefur ekki lagfært þetta. Hér hefur komið fram hjá fulltrúum allra flokka að nauðsynlegt sé að lengja flugbrautina á Akureyri til að áfram megi stunda þar millilandaflug, sem hefur verið að þróast farsællega á þessu ári.

Það er aumt til þess að vita að ríkisstjórnin skuli ekki standa við sinn hlut hvað þetta varðar. Oft hafa nú falleg orð fallið á hinu háa Alþingi um byggðaáætlun og byggðamál. En þegar fyrirtæki, ekki ríkisfyrirtæki heldur t.d. bara Iceland Express, vill hefja þetta flug og bjóða upp á þennan kost, sem hefur verið vel nýttur og kærkomin viðbót í atvinnulíf á Norðurlandi, þá stendur ríkisvaldið sig ekki. Þetta á reyndar að mörgu leyti við um Egilsstaði líka. Ef þetta frumvarp verður að lögum eins og það er gagnvart Flugmálastjórn þá samþykkir stjórnarmeirihlutinn að fyrirhugaðar framkvæmdir við Akureyrarflugvöll, sem fara átti í á næsta ári, komist í uppnám og í þær ekki farið.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þetta frumvarp til fjárlaga. Ég átti þess ekki kost að taka þátt í 2. umr. um frumvarpið og hef því gert það við 3. umr. Ég hef rætt um þá tvo málaflokka sem heyra undir þær tvær nefndir sem ég sit í, annars vegar heilbrigðis- og trygginganefnd og hins vegar samgöngunefnd. En samgöngumál eru mér mjög hugleikin og ég ítreka það sem ég hef sagt um þau. Ég tel að gera þurfi miklu betur í vegamálum, gera vegina betri og öruggari.

Ég hef hér gert að umtalsefni fjárskort heilbrigðiskerfisins. Þar sem formaður fjárlaganefndar er í salnum þá langar mig að nefna að það sem hann talaði um, um að einhver hefði þurft að bíða í 15 mínútur eftir að fá samband við þjónustufulltrúa hjá Tryggingastofnun og hann ætlaði að kíkja á hvernig mætti bæta það, er lítil miðað við fjársveltið í heilbrigðiskerfinu, sem m.a. kemur fram í því að fólk hefur ekki fengið liðskiptaaðgerðir í tvo til fjóra mánuði vegna þess að kvótinn til þess er búinn á þessu ári.