133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnrétti til tónlistarnáms.

289. mál
[15:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra í rauninni ekki fyrir svörin heldur ræðuna og öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með ræðu hæstv. ráðherra því að hún byggðist á nokkrum misskilningi. Það er tvennt ólíkt, almennt tónlistarnám og stuðningur hins opinbera við tónlistarnám og tónlistarskóla í landinu, sem ég er alveg sammála um að þarf að endurskoða og á að skapa sama sess og öðru námi.

Ég var fyrst og fremst að lýsa lögunum um framhaldsskóla og skyldum hæstv. ráðherra hvað þau varðar. Ég vitnaði til þess að í lögum um framhaldsskólann er kveðið á um námsbrautir, m.a. um listnámsbrautir, þar sem m.a. tónlistarnám er stór hluti af framhaldsskólanáminu. Ráðherra getur ekki skorast undan því að hún ber ábyrgð á námskrá og námsframboði framhaldsskólanna, bæði hvað varðar kostnað, launagreiðslur og annað. Enda tók líka samkomulagið sem gert var, bráðabirgðasamkomulag milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og gilti bara út árið 2005, fyrst og fremst til náms í framhaldsskólunum.

Alveg óháð þeim vandræðagangi sem er með tónlistarnámið og listnámið almennt, þá tel ég að ráðherra beri skylda til þess gagnvart nemendunum, lögum samkvæmt, að þeir þurfi ekki að bera fjárhagslegt tjón af því að stunda nám á framhaldsskólastigi og þessum hluta af námi til stúdentsprófs sérstaklega. (Forseti hringir.) Það er verulegt misrétti ef eitthvert ósamkomulag bitnar með þeim hætti á nemendum, frú forseti.