133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:42]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Mig langar að koma að málum er varða samgöngumál á Suðurlandi undir þessum dagskrárlið.

Þegar ákveða skal um stórar framkvæmdir eins og samgöngumál sem eiga að endast til langrar framtíðar ber stjórnvöldum að hafa góða yfirsýn yfir málaflokkinn og leita allra leiða til að framkvæmdirnar megi nýtast sem best og ekki síður að framkvæmdin sé sem öruggust fyrir vegfarendur og fyrir samfélagið í heild. Meðal annars þess vegna eigum við að standa þannig að framkvæmdum á Suðurlandsvegi að þær megi vera sem líkastar því sem gert er á Reykjanesbrautinni, 2+2 með aðskildum akreinum. Umferðaraukning er hvergi meiri á síðustu árum en einmitt á Suðurlandsvegi. Flest bendir til þess að svo verði áfram. Stöðug fjölgun íbúa austan fjalls, síaukin frístundabyggð með æ yngra fólki sem þar hefur tekið búsetu sem þýðir aukna ferðatíðni, tenging með nýjum Kjalvegi um suður- og norðurveg mun þýða mun meiri umferð um Suðurlandsveg. Fyrirhugaður orkufrekur iðnaður í Þorlákshöfn mun jafnframt krefjast þess að framkvæmdirnar verði hafðar þannig að þær megi duga til frambúðar.

Mig langar að spyrja: Er vegamálastjóri ekki sammála því sem við tölum um á þinginu? Ég legg mikla áherslu á það að sú 12 ára samgönguáætlun sem þingið mun samþykkja í vetur verði sú stefna sem verði tekin núna, að samgönguáætlunin og vilji þingsins fái að ráða.