133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

ummæli þingmanns um samgönguráðherra og Vegagerðina.

[10:59]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Einmitt um fundarstjórn forseta vegna þess með hvaða hætti nokkrir hv. þingmenn stjórnarandstöðu koma hér í ræðustól. Þeir hafa farið hér upp undir liðnum um störf þingsins við upphaf þingfundar eins og eðlilegt er samkvæmt þingsköpum og leitað skýringa. Útúrsnúningar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar við að túlka umræður hér sem árásir á Vegagerðina eru gjörsamlega út í hött.

Hið sama má segja um ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, og ég býð hann velkominn til starfa aftur. Það er ánægjulegt að sjá hann hér og ég vona að ekki eigi að túlka ræðu hans hér með þeim hætti að hann sé að reyna að spilla þeirri þverpólitísku sátt sem náðst hefur um Suðurlandsveginn. Ég vona að ekki þurfi að túlka hana þannig.

Hæstv. forseti. Það sem málið snýst um hér er að það er verið að leita skýringa og það er óskað eftir liðsinni hæstv. samgönguráðherra. Í bréfi frá Vegagerðinni, formlegu embættisbréfi, dags. 11. júlí 2005, segir einfaldlega að bein vegagerð austur að Selfossi kosti 5 milljarða kr. Síðan kemur kostnaður við gatnamót upp á 2 milljarða kr. og þau gatnamót eru sundurliðuð lið fyrir lið. Síðan er talað um hliðarvegi upp á 200 millj. kr., ræsi og brýr u.þ.b. 500 millj. kr., þ.e. 7–8 milljarða kr. samtals. (Gripið fram í.)

Síðan kemur vegamálastjóri í sjónvarpsfréttum í gær eða fyrradag og talar um 12 milljarða kr. Við hljótum, einmitt í þeirri þverpólitísku sátt sem hefur náðst um þetta verkefni, af því að það mikilvægt, að leita eftir skýringum á því hvað veldur hækkunum á verkinu um 50%. (Gripið fram í.) Þar er ekki ráðist á einn eða neinn. (SJS: … bera af sér sakir.) Það er verið að leita skýringa. Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætlar að taka orðið þannig að hér sé verið að ráðast á einhvern eru annarlegar hvatir að baki. Þá er hann að reyna að spilla (Forseti hringir.) þverpólitískri sátt.

(Forseti (SP): Ég bið hv. þingmenn að halda ró sinni hér í salnum. Hér er verið að ræða vandmeðfarin mál.)