133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:44]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom reyndar fram hjá forsvarsmanni Sinfóníuhljómsveitarinnar þegar þeir voru spurðir að því hvernig samstarfi hljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins hefði verið háttað á síðustu árum og áratugum að það samstarf hefði verið upp og ofan, þ.e. gott við útvarpið en heldur svona brokkgengt við sjónvarpið. Ég hef engar áhyggjur af því að Ríkisútvarpið, þ.e. hljóðvarpið, muni ekki útvarpa áfram tónleikum frá Sinfóníuhljómsveitinni.

Ég hef heldur ekki áhyggjur af því að ríkissjónvarpið muni ekki útvarpa frá tónleikunum. Sérstaklega í ljósi þess að það kom fram á fundum nefndarinnar að stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur verið í viðræðum við Ríkisútvarpið um að styrktaraðilar Sinfóníuhljómsveitarinnar kosti útsendingar frá sinfóníutónleikum í Ríkisútvarpinu. Ég held því að þessi mál séu í fínum farvegi.

En aðalatriðið er þetta sem ég var að reyna að koma að áðan, að með þeim breytingartillögum sem liggja fyrir um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. þá er ekki verið að skerða tekjur Ríkisútvarpsins á kostun. Hins vegar eru í nefndaráliti meiri hlutans tilmæli sem lúta að því að mælast til þess við menntamálaráðherra að í þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf. verði lögð áhersla á að þær tekjur sem koma til Ríkisútvarpsins ohf. vegna kostunar (Forseti hringir.) renni frekar til dagskrárefnis sem varðar íslenska tungu, (Forseti hringir.) menningararfleifð og sögu frekar en til erlends afþreyingarefnis. Þetta getur ekkert verið skýrara en þetta. (Forseti hringir.)