133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[11:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já. Þetta er vissulega sjónarmið út af fyrir sig, að sveitarfélögin hafa lagt blessun sína yfir þessar breytingar. Ég tel hins vegar að það sé mjög vanhugsað og mjög misráðið af þeirra hálfu.

Ég er ekki að halda því fram að við séum með þessum lagabreytingum, ef þær verða samþykktar, að afnema alla sérstöðu sjóðsins. Ég sagði það ekki. Ég hygg hins vegar að við séum að stíga skref í þá átt að sú sérstaða sem sjóðurinn nýtur af hálfu ríkisvaldsins um að undanþiggja sjóðinn sköttum, muni ekki hvíla á eins traustum grunni og hún hefur gert til þessa.

Eftir því sem við færum sjóðinn nær því sem gerist almennt um fjármálafyrirtæki á markaði, þá veikjast varnirnar fyrir þessari sérstöðu. Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það. Enda kom það í reynd fram í máli manna á fundi félagsmálanefndar Alþingis.