133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Við heyrðum hér stórundarlega en mjög dæmigerða ræðu fyrir undanbrögð og flæming Sjálfstæðisflokksins í þessum njósnamálum. Nú er verið að reyna, fyrir utan að gera lítið úr þessu öllu og vekja athygli á hvað þetta hefði verið sjaldan og hvað þetta hefði verið vel afmarkað, bara brotin mannréttindi á tiltölulega fáum, sagði hæstv. ráðherra, þá á að klína þessu á Framsóknarflokkinn. Og aðallega þá feðga Hermann Jónasson og Steingrím Hermannsson. Þeir voru aðalsökudólgarnir í huga hæstv. ráðherra Árna Mathiesens.

Að vitna til nefndar Páls Hreinssonar dugar ekki vegna þess að sú nefnd á eingöngu að fjalla um aðgengi fræðimanna að skjölum. Hún er ekki rannsóknarnefnd. Hún hefur ekki stöðu til að kveðja menn til vitnis. Þaðan af síður hefur trúnaðarskyldu verið aflétt af mönnum o.s.frv.

Þessi tregða Sjálfstæðisflokksins í málinu er óskiljanleg. Hvers vegna gengur núverandi forusta Sjálfstæðisflokksins út í það fúafen að reyna að réttlæta og verja þessa gjörninga frá því fyrir upp undir hálfri öld síðan eða meira? Hvers vegna tekur hún ekki þátt í því eins og aðrir flokkar, og menn hafa gert í öðrum löndum, að takast heiðarlega á við þetta verkefni á þann eina hátt sem fært er? Það er að upplýsa það til fulls. Það er að ákveða hvernig verði farið með það í framhaldinu. Það er að taka til skoðunar hvort ekki beri að greiða fólki bætur sem varð fyrir miska og það er að ganga frá því með skýrum hætti í lögum hvernig aðgengi, ekki bara fræðimanna, heldur þjóðarinnar allrar, og ekki síst viðkomandi fólks eða aðstandenda þeirra verður háttað.

Þetta mál snýst ekki bara um símhleranir. Það snýst líka um viðvarandi leyniþjónustustarfsemi þar sem haldnar voru spjaldskrár á grundvelli stjórnmálaskoðana og hugsana fólks. Það áttu sér stað grófar, pólitískar (Forseti hringir.) njósnir og pólitísk mannréttindabrot. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) að reyna lengur að þvælast svona undan í málinu.