133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:41]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. fjármálaráðherra áðan var afar athyglisverð. Hún fól nánast í sér þá ósk að menn létu þessi mál í friði, menn horfðu til baka og litu svo á að það hefði verið sérstakt ástand uppi sem réttlætti þetta. Ræða hans gekk á einn eða annan hátt út á það að fleiri hefðu verið ábyrgir en bara Sjálfstæðisflokkurinn. Það er í raun og veru efni ræðunnar.

En þessi mál eru vitaskuld miklu alvarlegri. Hér eru í raun og veru á ferðinni geðþóttaákvarðanir ríkisins eða ráðherra á sínum tíma, að óska eftir hlerunarheimildum gagnvart tilteknum einstaklingum án þess að uppi væri grunur um nokkuð saknæmt athæfi svo vitað sé. Það er fyrst og fremst hjá pólitískum andstæðingum Sjálfstæðismanna sem óskað er eftir hlerunum og það er eðlilegt og skynsamlegt og nauðsynlegt að við hreinsum þarna til í sögu okkar.

Við þurfum að draga það fram hvað þarna bjó að baki og það dugar ekki að halda því fram að þá hafi verið erfitt ástand. Þá hafi verið öðruvísi ástand eða hugmyndafræðilegur ágreiningur í samfélaginu. Einmitt þá er krafan á ríkisvaldið um að viðhafa vönduð vinnubrögð miklu meiri því það er svo auðvelt að missa sig í einhvern tilfinningahita. Það er svo auðvelt að missa sig í að láta geðþótta ráða þeim ákvörðunum sem teknar eru.

Það er einnig mikilvægt að minnast þess að á þessum tíma var staða dómstóla veik því það var oftar en ekki að framkvæmdarvald og dómsvald var á sömu hendi. Svo menn skulu minnast þess í þessari umræðu.

Þannig ég skil ekki hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn, nánast einn þingflokka, berst gegn því að málið verði opnað (Forseti hringir.) upp á fulla gátt.