133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það mátti skilja á orðum hæstv. sjávarútvegsráðherra að öryggisþjónusta sú sem Guðni Th. Jóhannesson skrifar um hafi haft fullan vilja til að vera stór og sterk en hefði því miður ekki getað orðið stærri en raun bar vitni. Þetta segir svolítið um drauma sjálfstæðismanna, finnst mér í þessum efnum (Gripið fram í.) en við skulum hafa það í huga að hleranirnar sem hefur verið upplýst um frá árunum 1949–1968 virtust í einu og öllu hafa verið pólitískar. Hverjir voru hleraðir? Þeir sem voru hleraðir voru leiðtogar stjórnarandstöðunnar, forustumenn verkalýðsfélaga og aðrir sem andæfðu ríkjandi stjórnarstefnu. Stjórnarandstaða, á sviði utanríkismála fyrst og fremst — það var hún sem var ógn við öryggi ríkisins.

Það er sennilegt að sú stefna hafi verið í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar enda sýndi það sig í leynilegri skoðanakönnun sem gerð var um afstöðu þjóðarinnar til hersetunnar, sem framkvæmd var af bandarískum stjórnvöldum árið 1955, hver vilji þjóðarinnar var í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Pólitískar símhleranir samræmast aldrei því skoðanafrelsi sem á að ríkja í lýðræðisríki. Í stað þess að draga lærdóm af þessu máli, þeirri hneisu sem það óneitanlega var og er, á enn og aftur að biðja um víðtækar hleranaheimildir. Aftur er á ferð ríkisstjórn sem rekur umdeilda og vafasama utanríkisstefnu sem forustumenn stjórnarflokkanna hafa meira að segja neyðst til, í ákveðnum tilfellum, að biðjast afsökunar á. Við sáum, virðulegur forseti, í atferli lögreglunnar gagnvart mótmælendum á Austurlandi í sumar sem leið að enn er rík tilhneiging til að skilgreina hvers konar andóf gegn stefnu ríkisvaldsins sem glæp og ganga harkalega fram gegn þeim sem víkja frá hefðbundnum aðferðum í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Það verður auðvitað að velta við öllum steinum, öll kurl verða að koma til grafar í þessu máli og nefnd Páls Hreinssonar (Forseti hringir.) verður ekki nægilega sterk til þess.