133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

Póst- og fjarskiptastofnun.

397. mál
[00:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Herra forseti. Ég flyt nefndarálit samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn fjölmarga aðila auk þess sem nefndinni bárust skriflegar umsagnir.

Í frumvarpinu er lagt til að breyta tekjugrunni Póst- og fjarskiptastofnunar þannig að starfrækslugjöld sem kveðið hefur verið á um í gjaldskrá verði sett inn í lögin sem gjald fyrir tíðninotkun. Þessi breyting miðar að því að einfalda gjaldstofna stofnunarinnar og ýta undir hagnýta notkun tíðna. Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á dagsektarákvæði laganna. Með þeim breytingum er aðallega verið að samræma ákvæði laganna og ákvæði laga um fjarskipti um sama efni.

Í máli fulltrúa fjarskiptafyrirtækja sem komu á fund nefndarinnar og í umsögnum frá sömu aðilum kemur fram hörð gagnrýni á frumvarpið. Í breytingartillögum reynir meiri hlutinn að koma til móts við gagnrýnina.

Meiri hlutinn leggur til að mörk gjaldsvæðis 2: Suðvesturland frá Suðurnesjum til Akraness í b-lið 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins, sem verður 14. gr. a laganna, verði afmarkað með skýrum hætti þannig að fram komi til hvaða sveitarfélaga ákvæðinu er ætlað að ná. Gert er ráð fyrir að svæðið nái yfir Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Seltjarnarneskaupstað, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Sveitarfélagið Álftanes, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Grindavíkurbæ, Sandgerðisbæ, Sveitarfélagið Garð, Sveitarfélagið Voga og Akraneskaupstað.

Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Í 1. málslið 1. gr. er sérstaklega tiltekið til hvaða laga sé vísað.

2. Þegar talað er um gjöld í 4. málslið b-liðar 2. gr. er tiltekið að átt sé við gjöld samkvæmt greininni.

3. Í a-lið 3. töluliðar 1. mgr. 3. gr. er lögð til leiðrétting.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir álit nefndarinnar rita auk mín hv. þm. Hjálmar Árnason, Guðjón Hjörleifsson, Þórdís Sigurðardóttir og Jón Kristjánsson.