133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[11:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp til laga um breytingar á lögum um búnaðarfræðslu þar sem staðfest er að Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal fær rétt til að heita háskóli, Háskólinn á Hólum. Því fagna ég. Þetta er gleðilegur áfangi í sögu skólans. Hins vegar er í bráðabirgðaákvæði með þessum lögum kveðið á um að störf starfsfólks stofnunarinnar skuli vera lögð niður við stofnunina, starfsfólkinu sagt upp þó að því sé síðan boðin endurráðning hjá hinni nýju stofnun. Þetta tel ég algjöran óþarfa. Hér er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða hjá stofnuninni og því ástæðulaust að rjúfa ráðningarsamband milli stofnunar og starfsfólks. Þetta starfsfólk hefur byggt upp þessa stofnun á undanförnum árum og það er á grundvelli verka þess sem við nú getum með stolti samþykkt að Hólaskóli verði Háskólinn á Hólum. Það á ekki að rjúfa það samband (Forseti hringir.) og ég legg því til að það verði fellt út (Forseti hringir.) og starfsfólkið haldi störfum sínum.