133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

lífeyrissjóðir.

233. mál
[12:08]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. um þetta mál greiddi ég atkvæði gegn ákvæði sem felur í sér heimild til að skerða lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði bankamanna og Lífeyrissjóði Búnaðarbankans en aðrir opinberir sjóðir njóta bakábyrgðar og því þarf aldrei að grípa til skerðingar á réttindum sjóðfélaga þeirra. Hjá bankamönnum gæti hins vegar komið til skerðingar. Það gæti náð til 5–6 þúsund fyrrverandi og núverandi bankamanna ef til hennar þyrfti að grípa.

Bakábyrgðin á þessum sjóðum var afnumin við einkavæðingu ríkisbankanna árið 1998. Þá voru bankarnir og sjóðfélagar sammála um að afnám bakábyrgðar ætti ekki að leiða til lakari lífeyrisréttinda í framtíðinni.

Þetta frumvarp felur í sér að hækka framlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði og að bæta lífeyrisréttindi í Fæðingarorlofssjóði og Ábyrgðasjóði launa. Ég styð það sannarlega en vegna heimildar til að skerða réttindi bankamanna sit ég hjá við afgreiðslu málsins.