133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:42]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af skorti á stöðugleika í samfélagi okkar en það er bein afleiðing af hagstjórn ríkisstjórnar sem hann ver á hverjum einasta degi í þinginu. Við sjáum að stöðugleikinn er einfaldlega ekki fyrir hendi í íslensku samfélagi. Íslensk heimili búa við nýjan skatt, verðbólguskatt, sem étur þær litlu kjarabætur sem þó eru í boði. Ég tek alveg undir það að við þurfum á miklu skynsamlegri hagstjórn að halda. Ég treysti Samfylkingunni betur til að gera það en núverandi ríkisstjórn, sérstaklega í ljósi árangursleysis ríkisstjórnarinnar á því sviði.

Með því að lækka matvælaverðið lækkar vísitalan. Það er bara svart á hvítu, það lækkar vísitöluna. Það verður ódýrara að lifa og ódýrara að kaupa í matinn. Þetta er aðgerð sem gagnast efnaminni fjölskyldum hvað mest. Það er takmarkað hvað hver einstaklingur getur borðað og þess vegna er þessi aðgerð miklu skynsamlegri að mínu mati en flöt prósentulækkun á tekjuskatti. Þetta gagnast venjulegu fólki langtum betur en sú leið sem ríkisstjórnin vill fara.

Að sjálfsögðu þurfum við að verja heimilin fyrir verðbólgunni því að ríkisstjórnin hefur gjörsamlega klúðrað tækifærum sínum þegar kemur að hagstjórn þessa lands. Það finna landsmenn á eigin skinni þessa dagana í ljósi hárrar verðbólgu og ofurvaxta.