133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:04]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Já, það er ekki samhengi á milli þess að við viljum afnema vörugjaldið algerlega, af því að við erum búin að skoða hvað er til góðs í myndun matarverðs, og þess hvort við viljum að börnin okkar séu feit eða borði mikinn sykur. Það er alveg ljóst að það er orðið stórkostlegt fituvandamál hér á landi þrátt fyrir að við séum með þetta verðlag. Þingmenn ættu þá að skoða það að fara í sérstakar heilsubúðir þar sem allra mesta hollustan er og verðið á vörunni þar. Hvað hafa þeir sem hafa svona miklar áhyggjur gert til að reyna að ná því verði niður?

Eitt af því sem þessi ríkisstjórn hefur gert gott er grænmetissamningurinn sem gerður var á sínum tíma við grænmetisbændur vegna þess að þá var gerður bæði aðlögunarsamningur og samningur um beingreiðslur. Þá varð ekki bara lækkun á þessum þremur tegundum sem var veittur framleiðslustuðningur við. Nei, það urðu afleidd áhrif á allt annað grænmeti, og ekki bara það heldur á ávextina líka. Þess vegna hafa ávextirnir lækkað hjá okkur. Ávextir hafa lækkað mjög mikið, bæði epli og appelsínur. Þetta snýst um að finna leiðir til úrbóta í fituvandamálinu og neysluvandamálinu.

Ef hv. þingmenn ætla að nota vörugjöld eða skatta til þess þarf að gera eitthvað annað en bara að viðhalda verðinu, þá þarf að fara í einhverjar rosalegar aðgerðir ef trúin er sú að það sé leiðin til að hafa áhrif á neysluna.