133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:16]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði að þetta mál væri vandræðamál fyrir okkur í Sjálfstæðisflokknum. Auðvitað er það ekki svo. Þetta er ekkert vandræðamál. Við erum að leggja það fram í þriðja skiptið og höfum staðið einhuga á bak við það.

Það sem er kannski vandræðalegt í málinu er skilningur þingmanna Samfylkingarinnar á þessum málum. Ég man eftir því, frú forseti, þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skrifaði á heimasíðu sína að með þessum breytingum yrði Ríkisútvarpið ríkisvætt. Ég held að það hafi verið sama dag og hv. þm. Össur Skarphéðinsson skrifaði á heimasíðu sinni að um einkavæðingu væri að ræða. Þannig að þótt sjaldan slitni á milli þeirra fóstbræðra, hv. þingmanna tveggja, virðast þeir ekki líta silfrið sömu augum.

Það er auðvitað hægt að selja allt, hv. þingmaður. Það þarf að gera með lagasetningu. Það stendur (Forseti hringir.) einfaldlega í þessu frumvarpi að óheimilt sé að selja Ríkisútvarpið og við það stöndum við.