133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að ríkisstjórnin lítur svo á að því sem næst neyðarástand sé á þinginu. Eins og hér hefur komið fram er allt nefndarstarf þingsins sett úr skorðum, öllu skal til kostað til þess að ríkisstjórnin fái sínu framgengt við að einkavæða Ríkisútvarpið og það fáeinum vikum fyrir næstu alþingiskosningar.

Það hefur verið boðað til fundar í félagsmálanefnd þingsins í matarhléi, núna klukkan eitt. Ég vil í ljósi þess sem hér hefur komið fram beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort til standi að gera hlé á þingfundinum þannig að hægt sé að funda með formönnum þingflokka til að ræða þinghaldið í dag og næstu daga. Við höfum ekki enn fengið svör við því hvort til stendur að hafa fyrirspurnatíma á morgun. Við höfum ekki fengið nein endanleg svör við því. Við vitum að búið er að setja allt nefndarstarf úr skorðum eins og hér hefur komið fram. Vísað var í bréf forstöðumanns nefndasviðsins þar að lútandi, en þingflokksformenn og þingmenn eiga kröfu á að vita hvaða áform eru um þinghaldið í vikunni. Ég vil ítreka óskir okkar og kröfur, um að við teljum eðlilegt að á morgun, á fyrirspurnadegi Alþingis, verði fyrirspurnir eins og hefð er fyrir.