133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:19]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að ræða um fundarstjórn forseta því að það berast engin svör varðandi þær beiðnir sem hér hafa verið margítrekaðar, umfram allt að þingheimur fái einhverja vitneskju um það hvernig tilhögun þingfunda er áætluð í þessari viku.

Það liggur ljóst fyrir að virðulegur forseti virðist hafa rofið hefðbundið samstarf við þingflokksformenn varðandi slíka framvindu. Það virðist vera slíkt neyðarástand í þinghaldinu að ekki sé hægt að hafa eðlilegt samráð á milli flokka um þingstörfin. Nefndastörf eru í uppnámi þessa viku. Það er ekki einu sinni hægt að upplýsa hvað fyrirhugað er að gera í dag eða kvöld eða nótt þannig að óvissan er algjör og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að virðulegur forseti geri a.m.k. grein fyrir því hvað veldur því að forseti treystir sér ekki til að hafa neitt samráð við þingflokksformenn eða þingmannahópinn almennt, þingsalinn, varðandi framvindu þinghaldsins. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þetta er afar sjaldgæf staða og nálgast trúlega að vera einsdæmi í fyrstu viku nýs árs að þannig skuli þinghald byrja. Það er ekki fyrirheit um góða tíð fram að þinglokum í vor ef svo á fram að halda. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, virðulegur forseti, að forseti gefi sér örlítinn tíma til að ræða við þingheim um þetta sérstaka ástand.

Það vakti athygli mína áðan í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hann fjallaði sérstaklega um fundarstjórn forseta að hann hafði miklar áhyggjur af því hvernig þingflokkum væri stjórnað í þessu húsi. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki stjórnun á sínum þingflokki og það kom augljóslega fram þar að varaformaður hans flokks stýrir þar öllu, (Gripið fram í: … yfirmaður …) yfirmaður þingflokksformanns og væntanlega allra þingmanna. Þetta skýrir að sjálfsögðu verulega hvernig hv. þingmaður hefur á stundum hagað málum sínum við stjórn menntamálanefndar, þ.e. aðallega á seinni stigum. Ég hef áður farið yfir það hversu vel hv. þingmaður hefur oft staðið sig þar, en það er greinilegt að þegar varaformaður hans hefur þurft að koma sínum málum fram kann hv. þingmaður að beygja sig. Hann upplifir það greinilega þannig að varaformaður hans er yfirmaður hans og stýrir og stjórnar því hvað hann gerir. Þess vegna kemur hv. þingmaður hér og ræðir ekki um samkeppnisþátt málsins, hv. þingmaður veit vel hvernig staðan er í þeim málum, veit að það muni veikja Ríkisútvarpið ef þetta mál fer fram. Það er líklega það sem hv. þingmaður vill vegna þess að hv. þingmaður vill selja Ríkisútvarpið.